Fara í efni

STAKSTEINAR OG PÓLITÍSKAR RANNSÓKNAMIÐSTÖÐVAR

Morgunblaðið gerir að umfjöllunarefni skrif mín hér á síðunni um svokallaða Rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál,  RSE.  Ég vakti athygli á þeim aðilum, sem að miðstöðinni standa en þeir eru flestir, ef ekki allir, af frjálshyggjuvæng stjórnmálanna, enda er markmið Rannsóknamiðstöðvarinnar að: „efla skilning og mikilvægi frjálsra viðskipta og eignaréttinda…“  Á vegum þessarar stofnunar var nýlega birt skýrsla um Ísland og alþjóðaviðskipti og vakti ég athygli á því að þar hefðu höfundar lýst því blákalt yfir að skýrslan væri skrifuð í því augnamiði að „tíunda kosti alþjóðaviðskipta…“  Þetta sagði ég að virtist ekki vera sérlega fræðileg nálgun.

Staksteinar Morgunblaðsins segja hinsvegar að þetta komi úr hörðustu átt. Ég hafi sjálfur sótt efnivið í smiðju rannsóknastofnana, sem starfi í anda pólitískra markmiða og vísar blaðið í Public World, rannsóknastofnun í samfélagsfræðum, sem Brendan Martin, veitir forstöðu en hann hafi reynst fundvís á „það sem hann telur dæmi um misheppnaðar einkavæðingar.“

Að vissu marki er þetta rétt hjá Morgunblaðinu. Public World er rannsóknastofnun sem starfar í anda félagslegra gilda og hefur haft verkalýðshreyfinguna að bakhjarli í ýmsum rannsóknaverkefnum sínum. Þetta er í sjálfu sér ekki gagnrýnivert. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert rangt við það að áhugamenn um samfélags- og efnahagsmál, og þá einnig þeir sem hafa ríka sannfæringu í eina eða aðra átt, standi fyrir rannsóknum. Vilji menn gagnrýna slíka aðila ber að gera það á efnislegum og málefnalegum forsendum en ekki með skírskotun til þess eins hver rannsakandinn eða skýrsluhöfundur er. Ég tel fyrrnefnda skýrslu sem unnin var á vegum RSE byggja á ófullnægjandi rökstuðningi og sjónarhorn höfunda vera þröngt og pólitískt. Mun ég síðar færa rök fyrir þessum fullyrðingum hér á síðunni.

En þótt gagnrýni eigi að snúa að innihaldi fremur en umgjörð þá á það líka að þola dagsljósið hverjir skýrsluhöfundar og aðstandendur þeirra eru. Þegar svo þeir sjálfir lýsa því yfir að starf þeirra sé póltískt, eins og skýrsluhöfundar umræddrar skýrslu gera, þá vakna að sjálfsögðu frekari spurningar um þá pólitík.

Enda þótt rannsóknamiðstöðvar séu pólitískt litaðar er ekki þar með sagt að vinnuaðferðir hljóti að vera óheiðarlegar. Hinsvegar er því ekki að leyna, að pólitískar rannsóknamiðstöðvar eru mjög misjafnlega vandar að virðingu sinni. Þegar Margaret Thatcher komst til valda í Bretlandi gekk hún gegn gamalli breskri hefð um vinnubrögð opinberrar rannsóknarnefndar. Allar götur frá því á 19. öld var fyrir því rík hefð í Bretlandi að setja á laggirnar rannsóknanefndir, skipaðar fróðum og faglegum aðilum víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Kappkostað var að tryggja að viðfangsefnið væri skoðað frá sem flestum sjónarhornum. Niðurstaðan varð því víð en ekki þröng og hefur þessi nálgun stundum verið nefnd þegar talað hefur verið um breska consensus-pólitík, þ.e. stjórnmál sem byggja á því að ná sátt og málamiðlun. Þessu breytti Thatcher. Hún stillir dæminu allt öðruvísi upp en áður hafði verið gert og segir: Þetta er pólitískt markmið okkar, því viljum við ná, það er ykkar hlutverk, rannsakendur og skýrsluhöfundar góðir, að finna út hvernig við náum þessu markmiði, hvernig við komumst á leiðarenda.

Þessi vinnubrögð geta verið góðra gjalda verð þegar þeim er beitt í réttu samhengi. Þegar hinsvegar á að rannsaka þjóðfélagsþróun og ekki síst þætti í þróuninni sem orka tvímælis eða eru umdeildir, gildir allt öðru máli. Þá ber mönnum að beita öðrum aðferðum, meta kosti og galla út frá víðara sjónarhorni en hinu þröngpólitíska. Þar sem höfundur Staksteina minntist á BSRB í pistli sínum langar mig að nefna á hvaða forsendum þau samtök hafa nálgast þá spurningu hvort að ráðast eigi í kerfisbreytingar hjá hinu opinbera og þá ekki síst einkavæðingu. Spurt er þriggja spurninga: Er líklegt eða gefur fengin reynsla vísbendingu um að breytingin verði til hagsbóta fyrir notanda þjónustunnar. Í öðru lagi er spurt, er líklegt eða gefur fengin reynsla vísbendingu um að betri nýting verði á þeim fjármunum sem til starfseminnar rennur, m.ö.o., er þetta hagkvæmara fyrir greiðandann. Í þriðja lagi er spurt hvernig breytingin muni koma út fyrir það starfsfólk sem á hlut að máli. Ef svörin eru játandi, styður BSRB að ráðist verði í breytingarnar. Á sama hátt gefur auga leið að séu svörin neitandi á ekki að framkvæma breytingarnar.

Innan BSRB leggjum við mikið upp úr því að rannsóknir á fenginni reynslu séu óvilhallar og vandaðar. Það er svo aftur rétt að við treystum betur til rannsókna á samfélagsþróuninni þeim sem kunna að meta það sem gott hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum í uppbyggingu velferðarsamfélagsins, en hinum sem sjá velferðarsamfélaginu allt til foráttu og ganga jafnvel svo langt að stofna með sér samtök til að innræta trú á kapitalisma og „eignaréttindi“.