Fara í efni

HVERS VEGNA HLUSTAR FRAMSÓKN EKKI Á GUÐNA?

Öfgafull stefna Framsóknarflokksins í stóriðjumálum veldur samstarfsflokknum í ríkisstjórn undrun og vaxandi áhyggjum. Sérstaklega hafa Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra flokksins, viðrað áhyggjur sínar, að vísu með dulmáli því ekki vilja þeir ganga of nærri Framsókn, sem af skiljanlegum ástæðum er sérstaklega taugaveikluð þessa dagana. Athygli vekur að Árni Matthiesen, fjármálaráðherra, hugsanlega af misskilinni samstöðu með álvinum sínum í Hafnarfirði, vill ekkert slæmt heyra um stóriðjuna og dansar jafnan djúpan áltangó með Framsókn þegar stóriðju ber á góma á Alþingi. Ræður hans um þetta efni hafa vakið furðu, svo gjörsamlega virðist þessi lykilráðherra í ríkisstjórn, úr tengslum við atvinnuvegi þjóðarinnar og þau áhrif sem stóriðjustefnan hefur á þá. Geir, flokksformaður, flutti hins vegar fræga ræðu í þinginu þar sem hann hamraði inn stóra og svera varnagla gagnvart álæði Framsóknar – þá og því aðeins ræðan -  og Einar K. hefur gert svipað í ræðu og riti: Varað við efnahagslegum afleiðingum hinnar öfgafullu stóriðjustefnu Framsóknarflokksins.

Öllu þessu hefur verið haldið til haga í þinginu. En eitt hefur gleymst. Það er ekki bara Kristinn H. Gunnarsson, sem haldið hefur uppi andófi í Framsóknarflokknum. Í þessu máli er það nefnilega ekki síður varaformaður flokksins, sjálfur Guðni Ágústsson, sem varað hefur við álæðinu í flokknum. Þetta hefur Guðni gert á afdráttarlausan og skeleggan hátt. Þessa dagana situr Guðni brúnaþungur á ráðherrabekk Alþingis og er greinilega ekki skemmt. Eða skyldi menn undra? Þegar Valgerður Sverrisdóttir, flokkssystir hans og samráðherra, hélt ásamt fríðu föruneyti til New York á dögunum, þá var ekki nóg með að hún gengi fram af þjóðhollum mönnum á borð við Guðna Ágústsson með því að krjúpa við forstjóraborð Alcoa auðhringsins. Á sama tíma gaf hún Guðna og félögum spark með því að hvetja til þess að Íslendingar tækju upp Evru sem gjaldmiðil. Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig. En þeir sem þekkja til í Framsóknarflokknum vita sem er, að þetta tal er sem olía á eldana sem nú loga í flokknum. Evrópusambandið er nefnilega ekki efst á óskalista landbúnaðarráðherrans og þeirra flokksmanna sem hann á samleið með.

Um Guðna Ágústsson er margt ágætt að segja. Hann er talsmaður félagslegra sjónarmiða og vill að Íslendingar sýni reisn í framgöngu sinni heima og heiman. Vandséð er hvernig hann getur lengur átt samleið með þeim ráðherrum Framsóknarflokksins, sem falbjóða landið erlendum auðhringum, einkavæða, gefa eða framselja eignir þjóðarinnar í hendur braskara og pólitískra vildarvina og vilja síðan í ofanálag fórna sjálfstæði þjóðarinnar með því að múra okkur inn í hið þreytta miðstýrða Evrópusamband.