Fara í efni

RÉTTLÁT REIÐI EÐA DÓMGREINDARLEYSI?


Í vikunni tók Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, pokann sinn og yfirgaf ráðuneyti og þing. Spunnust af þessu orðaskipti á Alþingi. Fyrir mitt leyti kvaddi ég Árna og óskaði honum velfarnaðar með þessum orðum: "Hæstv. forseti. Fyrst hin persónulegu skilaboð, síðan hin pólitísku skilaboð. Persónulega þykir mér eftirsjá að Árna Magnússyni úr stjórnmálum og óska ég  honum alls góðs. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að segja að við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskum öllum hrókeruðum hæstv. ráðherrum og þingmönnum velfarnaðar í starfi og brottförnum að sama skapi."  Þetta voru persónulegar kveðjur og vil ég leggja áherslu á, að persónulegar velfarnaðaróskir félaga minna í VG og sjálfs mín til handa Árna Magnússyni, eru hugheilar. Hefur mér líkað prýðilega við manninn eins og þeir sem til þekkja vita.

En Árni er ekki bara Árni. Hann er líka áhrifamaður í innsta hring Framsóknarflokksins og á hrókeringunum í flokknum og brotthvarfi ráðherrans eru einmitt pólitískar hliðar sem ég einnig gerði að umræðuefni á Alþingi af þessu tilefni: "Ég neita því ekki að ég varð hugsi þegar ég heyrði að fyrrv. hæstv. félagsmálaráðherra verði settur yfir fjárfestingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, eins og það mun hafa verið kallað, hjá einum af stærstu bönkum á Íslandi. Ég fæ ekki betur skilið en þetta sé annað heiti á raforkugeiranum og vek athygli á því að fyrir Alþingi liggja frumvörp frá ríkisstjórninni um að hlutafélagavæða og einkavæða raforkufyrirtækin í landinu. Þetta er þörf áminning til þingsins um að fjármálaheimurinn bíður spenntur eftir því að geta fengið almannaeignir til ráðstöfunar, almannaeignir sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í þann mund að færa honum til ráðstöfunar. Það eru hin pólitísku skilaboð."

Þegar hér var komið sögu kvaddi sér hljóðs Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og bankamálaráðherra, og fór ekki framhjá neinum að allra veðra mátti vera von þegar hún hæfi upp raust sína í pontu Alþingis. Valgerður sagði: "Hæstv. forseti. Mér finnst það ótrúlega óviðeigandi af hv. þm. Ögmundi Jónassyni að flytja þá ræðu sem hann gerði hér nú. Það sem bíður fráfarandi félagsmálaráðherra í Íslandsbanka varðar allt annað en það sem hv. þingmaður talaði um í sinni ræðu og mér finnst það honum til minnkunar að halda þá ræðu sem hann hélt."

En hvað er rétt í þessu máli?

Árni Magnússon segir í fréttaviðtali sem birtist í ljósvakamiðlunum, þar á meðal í RÚV 5. mars kl. 18:00 : " … Síðan gerðist það núna bara á síðustu dögum að mér býðst spennandi tækifæri á viðskiptasviðinu, geng til liðs við Íslandsbanka og renni þar til starfa á fjárfestinga- og alþjóðasviði bankans og fer þá fyrir því starfi sem að bankinn er að fara í á sviði endurnýjanlegra orkugjafa."

Af þessu er augljóst að Valgerður Sverrisdóttir fór með rangt mál í þinginu en ég rétt.

Í Kastljósi Sjónvarps sama kvöld lýsir Árni því hvernig hann hafi verið innsti koppur í búri í stjórnsýslu orkumálanna um langt skeið og skýrir fyrir áheyrendum áhuga Íslandsbanka á sér: "Bankinn hefur verið að skilgreina, svona, styrkleika sína á alþjóðasviði og fjárfestingasviði, í sjávarútvegi, á sviði endurnýjanlegrar orku, hefur náð miklum árangri í sjávarútveginum, er að fara af stað á sviði endurnýjanlegu orkunnar.  Ég er aðstoðarmaður iðnaðarráðherra í á fimmta ár, ég er það einmitt á þeim tíma sem fer af stað mikil vinna við, svona, stefnumótun í nýtingu endurnýjanlegrar orku hér á landi, ég er aðstoðarmaður Finns Ingólfssonar þegar tekin er ákvörðun um að stækka álverið í Straumsvík, þegar starfið með Norðuráli fer af stað og því er lokið þannig að ég þekki þennan geira ágætlega.  Ég sat í stjórn markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar o.s.frv. o.s.frv. þannig að ég er svona að nokkru leyti þarna á heimavelli."

Á Alþingi er það hlutverk alþingismanna að vekja athygli á pólitísku samhengi hlutanna, ekki síst þegar í senn fjármunir og almannahagsmunir eru annars vegar. Þannig hef ég vakið athygli á fjármálaumsvifum ýmissa manna, sem tengjast  einkavæðingu ríkisstjórnarinnar og hagnast vel á henni. Þessir menn koma margir úr Framsóknarflokknum. Nefni ég þar Finn Ingólfsson og Ólaf Ólafsson sem hagnast hafa um gríðarlegar upphæðir á vegum Framsóknarflokksins. Það nöturlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og bankamálaráðherra, er að það eru þessir menn ekki síður en ég, sem bent hafa á samhengið á milli einkavæðingarinnar og þeirra möguleika  sem hún býður upp á fyrir fjárfesta. Eða hvað þykir mönnum um eftirfarandi ummæli Ólafs Ólafssonar á vef Morgunblaðsins 10. janúar sl. þegar hann ræddi fyrirhugaða sölu sína á Olíufélaginu  (sjálfur ætlaði hann með feng sinn úr landi) og hve snjallt það gæti verið fyrir væntanlega kaupendur að nýta sér möguleika sem nú væru að skapast í orkugeiranum og vatninu!: "Fyrir einu og hálfu ári ákváðum við að efla fjárfestingar okkar utan Íslands og fara í frekari útrás en við þegar höfum verið í á undanförnum árum. Núna metum við það svo að ástandið á íslenska markaðnum, efnahagsástandið, sé afar hagstætt og verði það vonandi næstu árin. Jafnframt að Olíufélagið sé til þess búið að fara í frekari verkefni hér heima, svo sem í orkugeiranum hvort sem það er í vatni eða rafmagni og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða heildsölu. Við teljum að nú sé áhugaverður tímapunktur fyrir nýja aðila að gefa sig fram…" (sjá nánar HÉR)

Þetta er það samhengi hlutanna sem ég benti á. Hins vegar væri það verðugt verkefni fyrir rannsóknarfréttamenn að rekja einkavæðingarfjármagnið, hvert "eigendur" þess hafa haldið með það til ávöxtunar og til að öðlast völd og áhrif. Og eins og Ólafur Ólafsson bendir á, þá er nú "áhugaverður tímapunktur" að fjárfesta "í orkugeiranum hvort sem það er í vatni eða rafmagni…"

Hér kemur til kasta ríkisstjórnarinnar að skapa fjárfestingarmöguleikana. Þegar hafa verið samþykkt mörg einkavæðingarfrumvörp og fyrir þinginu er nú frumvarp sem herðir á einka-eignarréttarákvæðum á vatni og frumvarp um að gera Rafmagnsveitur ríkisins að hlutafélagi, að ógleymdum loforðunum um að selja Landsvirkjun!  Sá ráðherra sem mælir fyrir þessum frumvörpum er Valgerður  Sverrisdóttir, iðnaðar- og bankamálaráðherra. Að hún skuli leyfa sér að standa upp á Alþingi og segja það vera mönnum til minnkunar að gagnrýna hennar verk og pólitískt og peningalegt samhengi hlutanna, ber vott ósvífni eða dómgreindarleysis, nema hvoru tveggja sé.