Fara í efni

ÞVERPÓLITÍSKUR JÓN BALDVIN?

Á miðvikudaginn var hringdi einhverskonar aðstoðar- eða vararáðherra í Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, vestan úr Bandaríkjunum til að segja honum að til stæði að loka herstöðinni á Miðnesheiði fyrir haustið. Geir, sem staðið hafði í þeirri trú að hann ætti í alvöru viðræðum við hinn bandaríska starfsbróður eða öllu heldur starfssystur sína um framtíð herstöðvarinnar, varð skiljanlega hvumsa  –  enda er þessi framkoma ekki samkvæmt því sem hefðbundið er að flokka undir venjulega samskiptahætti, hvað þá tillitssemi og kurteisi.

Varð nú uppi fótur og fit. Ríkisstjórn Íslands var boðuð til fundar í snarhasti svo og formenn stjórnmálaflokka og utanríkismálanefnd Alþingis. Á fundi formanna flokkanna var reifuð sú hugmynd að efna til þverpólitísks samstarfs um aðkomu að þessum málum, nauðsynlegum viðbrögðum gagnvart öryggismálum, atvinnulífi á Suðurnesjum og yfirtöku verkefna frá Bandaríkjamönnum. Ekkert var ákveðið í þessu efni en ljóst að ef hugmyndin um þverpólitíska aðkomu ætti að verða að veruleika, þyrfti vilji að vera fyrir hendi af allra hálfu. Hér er reyndar á ferðinni hugmynd úr þingsályktunartillögu VG frá síðasta þingi og yfirstandandi þingi og bíður þar afgreiðslu.

En það er ekki hægt að bíða endalaust og til þess að leysa málið – höggva á hnútinn - hefur formaður Samfylkingarinnar nú ákveðið einhliða að skipa hina þverpólitísku nefnd. Í fréttum í kvöld var okkur sagt að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum formaður Alþýðuflokksins, yrði formaður nefndarinnar. Svona er hægt að leysa málin hratt og vel. Kannski verður skipuð önnur nefnd á morgun til að ná þverpólitískri sátt um heilbrigðismálin með sérstakri áherslu á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Sighvatur Björgvinsson gæti orðið formaður í þeirri nefnd. Vanur maður. Svona má ná árangri – eða hvað?