Fara í efni

UM LOTTÓVINNINGA, RÚSSNESKA RÚLLETTU OG PÓLITÍSKA KÖNNUN FRAMSÓKNARFLOKKSINS Á KOSTNAÐ SKATTBORGARA


Það er hressandi að heyra í Skagfirðingum þessa dagana, enginn uppgjafartónn þar á bæ. Það skiptir máli að Vinstrihreyfingin grænt framboð á aðild að sveitarstjórninni í Skagafirði. Í yfirlýsingu sem kom frá VG í Skagafirði í dag er minnt á að
" Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vildu álver í Skagafjörð og voru tilbúin til að fórna skagfirsku Jökulsánum og náttúru þeirra. Vinstri grænir stóðu einir stjórnmálaflokka í Skagafirði með Jökulsánum og Héraðsvötnum og uppskera nú árangur þeirrar baráttu. Mikilvægt er að öllum hugmyndum sem hafa verið uppi um virkjun Jökulsánna verði nú hafnað í aðalskipulagi Skagafjarðar og þær endanlega slegnar út af borðinu, og verndun ánna  og tækifæri þeim tengd tryggð til framtíðar."

Sóknartónninn í VG mönnum er ótvíræður: "Vinstri grænir í Skagafirði fagna því að Skagfirðingar geti nú einbeitt sér á nýjan leik að uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs í héraðinu  fyrir það unga fólk sem er að mennta sig til margvíslegra starfa. Áfram verði haldið að skjóta frekari stoðum undir það atvinnulíf sem fyrir er í héraðinu eins og landbúnað og úrvinnsluiðnað, opinbera þjónustu, fjármálastarfsemi og ferðaþjónustu sem nú horfir fram á stóraukna möguleika og tækifæri að áldraugnum gengnum. Ennfremur felast mikil sóknarfæri í eflingu Hátækniseturs á Sauðárkróki, hátækniiðnaði, mennta og þróunarstarfi og fleiri vænlegum atvinnukostum sem unnið er að og styðja fjölbreyttara mannlíf í Skagafirði."

Þá er umhugsunarvert að VG-menn segja ekki að líta beri á áltillögur Alcan og ríkisstjórnarinnar sem mögulegan Lottóvinning eins og álsinnar orða það,  heldur eins og rússneska rúllettu og er augljóst að þeim þykir sá verða fyrir áfallinu sem hlýtur álhnossið: "Nú liggur opinberlega fyrir að álrisinn Alcoa og álráðherra  Framsóknar, Valgerður Sverrrisdóttir horfa ekki til Skagafjarðar með áform um álbræðslu. Þeim ljóta leik að etja saman héruðum og íbúum þeirra í einskonar rússneskri rúlletu gagnvart uppbyggingu annarra og vænlegri atvinnugreina í viðkomandi héruðum er lokið."

Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikið á sig til að sannfæra Norðlendinga um ágæti þess að hleypa Alcoa inn á gafl. Flokkurinn hefur látið gera skoðanakannanir í þessu skyni sem hann vonaðist til að gögnuðust í áróðursstríðinu. Ljóst er að útkoman varð álráðherra flokksins vonbrigði, svo mikil reyndist andstaðan við álver á Norðurlandi. Ég hef kynnt mér niðurstöður könnunarinnar og furða mig á því að spurningar um pólitíska afstöðu manna eru ekki birtar í þeim niðurstöðum sem hafa verið gerðar opinberar. Ég hef hins vegar heyrt frá nokkrum einstaklingum sem lentu í úrtaki þessarar könnunar Framsóknarflokksins og voru þeir spurðir um hvaða flokk þeir styddu. Eru þetta upplýsingar sem Framsóknarflokkurinn ætlar að halda fyrir sig? Mér finnst í góðu lagi að spurt sé um pólitíska afstöðu manna. Ég hef hins vegar um það efasemdir að svo sé gert í skoðanakönnun sem Framsóknarflokkurinn lætur iðnaðarráðuneytið og þar með skattborgarann greiða fyrir.