Fara í efni

BREYTTAR ÁHERSLUR SAMFYLKINGARINNAR Í SKATTA- OG STÓRIÐJUMÁLUM?

Batnandi fólki er best að lifa. Þess vegna hljótum við að taka fagnandi yfirlýsingum formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í fréttum um helgina, um úrræði í efnahagsmálum. Ég fæ ekki betur séð en þær feli í sér kúvendingu á stefnu Samfylkingarinnar í veigamiklum atriðum.
Í fyrsta lagi tekur formaður Samfylkingarinnar undir kröfu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til langs tíma, um stóriðjustopp á næstu árum. Þetta er fráhvarf frá fyrri yfirlýsingum, þótt það verði að viðurkennast að erfitt er að átta sig á því hver raunveruleg stefna Samfylkingarinnar er í þessum efnum því eitt virðist vera sagt á Austfjörðum og á Húsavík, annað á Sauðárkróki og svo enn annað í Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Á Alþingi hefur yfirleitt verið talað fremur óskýrt um þessi efni.

Þá eru það skattarnir. Samfylkingin tók þátt í því fyrir síðustu alþingiskosningar að lofa stórfelldum skattalækkunum. Nú er varað við slíkri stefnu. Gott og vel, vissulega geta aðstæður breyst og sjónarmiðin einnig.

Þriðja atriðið sem formaður Samfylkingarinnar nefnir sem nauðsynlegt efnahagsúrræði nú um stundir er að fallið verði frá ákvörðunum um hækkun húsnæðislána. Þessu atriði er ég ekki sammála og er mér spurn hvort Samfylkingin telji það vera heppilegt efnahagsúrræði að setja klyfjar okurlána á fólk sem er að koma þaki yfir höfuðið – því þetta er augljóslega krafa um að hagstæð lán Íbúðalánasjóðs gangi ekki til þessa fólks? Með þessu móti er verið að taka undir með Samtökum banka og fjármálafyrirtækja, sem vilja Íbúðalánasjóð feigan. Fyrir fáeinum dögum var hækkun íbúðalána fagnað hér á síðunni, sbr. HÉR. Sú afstaða er ítrekuð hér og nú.

Hvað fyrri atriðin tvö snertir er það jákvætt að sífellt fleiri stjórnmálamenn skuli taka undir þau sjónarmið sem Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur haldið fram. Um árabil, eða allar götur frá því stóriðjuáform Framsóknarflokksins fyrst voru kynnt, hefur VG barist af alefli gegn stóriðjustefnunni. Andstaða VG við stóriðjuáformin voru vissulega af umhverfisvænum toga en ekki síður voru sett fram efnahagsleg rök gegn þessari stefnu. Nú er komið á daginn að þau reyndust vera rétt. Hið sama á við um skattana. Bæði er það svo að varasamt er að lækka skatta við núverandi þensluástand og á hitt er einnig að líta að mikið innstreymi skatttekna í ríkissjóð vegna þenslunnar gefur okkur óraunsæja mynd af framtíðnni: Gegndarlaus skuldsetning og mikill viðskiptahalli, hvort tveggja neikvætt í sjálfu sér, færir ríkissjóði stórauknar tekjur í formi skatta og innflutningsgjalda. Hvað gerist þegar þetta ástand breytist? Munu skattarnir þá duga til að reka skólana, sjúkrahúsin og bæta stöðu aldraðra, nokkuð sem allir vilja nú gera – alla vega í aðdraganda kosninga!
Um leið og ég geri þennan viðsnúning Samfylkingarinnar að umræðuefni, ítreka ég ánægju með þessar nýju áherslur flokksins því þetta eru grundvallarforsendur, sem hljóta að vega þungt þegar stjórnarsamstarf af hálfu VG kemur til álita að loknum næstu alþingiskosningum. Formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu á nýafstöðnum flokkstjórnarfundi að Samfylkingin væri ekki, og vildi ekki vera, "jaðarflokkur" heldur stór og breiður flokkur. Það skyldi þó aldrei vera að sá flokkur sem hér var augljóslega skírskotað til sem jaðarflokks, Vinstrihreyfingin grænt framboð, hafi verið sá flokkur sem mestan hljómgrunn hefur átt með þjóðinni í þessum efnum á undanförnum misserum? Gæti verið, að hvað stóriðjustefnuna snertir, sé Samfylkingin nú, þegar allt kemur til alls, að skríða utan af jaðrinum og samræma sjónarmið sín meirihlutaviljanum í landinu?