Fara í efni

HREINAR LÍNUR VG – ÖSSUR OG INGIBJÖRG SÓLRÚN

Birtist í Morgunblaðinu 25.05.06
Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að stjórnmálaflokkar eigi að lýsa því yfir fyrir kosningar með hverjum þeir vilji vinna að kosningum afloknum. Þetta hefur líka verið, og er enn, afstaða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hvort sem er í Reykjavík eða á landsvísu. Á landsfundi VG í haust lýsti Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins yfir vilja til samstarfs við Samfylkinguna og Frjálslynda að loknum næstu alþingiskosningum. Í kjölfarið beindu fréttamenn fyrirspurnum til forsvarsmanna Samfylkingarinnar hvort þeir væru reiðubúnir að gefa út yfirlýsingu í þessa veru. Svo reyndist ekki vera. Þegar ákveðið var að R-lista flokkarnir byðu fram hver í sínu lagi við þessar borgarstjórnarkosningar kváðust fulltrúar VG því fylgjandi að sameiginlega gæfu þeir út yfirlýsingu um samstarf eftir kosningar. Ekki voru forsvarsmenn Samfylkingarinnar reiðubúnir til þessa.

Þetta rifja ég upp í ljósi Morgunblaðsgreinar Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í Reykjavík, í Morgunblaðinu 22. maí. Þar segir hann m.a. eftirfarandi:

"Í gær sýndi Gallup-könnun fyrir RÚV að það er loks tekið að fjara undan Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Við þessar aðstæður er það bylmingshögg í bringspalir sannra vinstrimanna að heyra það opinberlega frá forystumönnum Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs að þeir geti hugsað sér að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn."
Hér vísar Össur í yfirlýsingar Svandísar Svavarsdóttur, oddvita á lista VG í Reykjavík, að flokkurinn muni láta málefni ráða við myndun borgarstjórnarmeirihluta. Ég er henni fullkomlega sammála. Þetta þýðir ekki að við sækjumst ekki eftir samstarfi við Samfylkinguna. Þvert á móti höfum við óskað eftir slíku samstarfi! Við leggjum hins vegar áherslu á að samstarf þarf að byggja á ásættanlegum grunni. Sannast sagna hefur mér oft blöskrað hve hægri sinnuð Samfylkingin er í ýmsum málum og ekki væri ég fyrir mitt leyti reiðubúinn að styðja ýmis hugðarefni hennar á eins konar óútfylltum víxli. Auðvitað á að láta málefnin ráða. Um þetta efni átti ég í all líflegri umræðu við stjórnmálamenn úr röðum Samfylkingarinnar á síðum þessa blaðs síðastiliðið haust.

Í grein sinni vitnar Össur Skarphéðinsson réttilega í afstöðu VG þegar hann segir: " Í ræðum, greinum og auglýsingum er VG sett fram sem eini valkostur vinstrimanna gegn Sjálfstæðisflokknum. Forystumenn VG hafa hvað eftir annað ítrekað að besta leiðin til að halda Sjálfstæðisflokknum frá áhrifum í borginni sé að kjósa VG."
Þetta eru orð að sönnu. Án aðkomu VG að stjórn Reykjavíkurborgar er tómt mál að tala um vinstristjórn í borginni. Hins vegar er það umhugsunarvert að það skuli vera Össur Skarphéðinsson, sem varar við samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þar talar nefnilega maður af reynslu.
Ég beini því til vinstrisinnaðra kjósenda í Reykjavík að íhuga hvaða árif það hefði haft í Reykjavík ef ekki hefði notið aðhalds af hálfu VG þegar áform voru uppi um að hlutafélagavæða Orkuveituna, þegar sala á hlut borgarinnar í Landsvirkjun var á döfinni, þegar húsnæðismál og félagsleg hagsmunamál hafa verið uppi og læt ég þá órætt um aðkomu borgarfulltrúa að Kárahnjúkamálum!
Samfylkingunni og VG hefur auðnast að vinna ágætlega saman. En við vitum hvor flokkurinn það er sem veitir þrýsting frá vinstri og þá einnig hvaðan blása hægri sinnaðri vindar. Um þetta eru hreinar línur, Össur Skarphéðinsson. Það er nefnilega rétt sem þú rifjar upp í grein þinni að kosningaslagorð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er: Hreinar línur. Það eru orð að sönnu.

Ég vona að Össur eigi eftir að blanda sér í kosningabaráttuna af krafti, til dæmis með því að skrifa grein til stuðnings Samfylkingunni í stað þess að beina kröftunum gegn Vinstrihreyfingunni grænu framboði á lokasprettinum.

Nokkuð erfitt er að átta sig á hvað vakir fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar í grein sem hún skrifar í Morgunblaðið á þriðjudag annað en að gera lítið úr hugsanlegum samherjum Samfylkingarinnar í félagshyggjumeirihluta í borginni. Hún fjallar þar um þá "mikilvægu yfirlýsingu fyrir borgarbúa"  frá Degi B. Eggertssyni, "borgarstjóraefni" Samfylkingarinnar um að "það komi ekki til greina að gefa eftir borgarstjórasætið í samningum við framsóknarmenn, frjálslynda eða vinstri græna." Athygli vekur að hvergi er útlokaðir slíkir samningar við Sjálfstæðisflokkinn, þann flokk sem Ingibjörg Sólrún telur koma til greina að Samfylkingin starfi með í Stjórnarráðinu að afloknum næstu þingkosningum.

Fyrir okkur sem viljum mynda félagshyggjumeirihluta í Ráðhúsinu eru þessi skilaboð frá þeim Össuri og Ingibjörgu Sólrúnu harla undarleg. Vonandi stafar þetta aðeins af taugaveiklun vegna dvínandi gengis Samfylkingarinnar en er ekki hugsað sem bölbænir í garð mögulegra samherja.