Fara í efni

HVORT ER BARIST UM STÓLA EÐA MÁLEFNI ?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar skrifar umhugsunarverða grein í Morgunblaðið þar sem hún segir: "Á laugardaginn verður kosið um næsta borgarstjóra í Reykjavík... Dagur B. Eggertsson borgarstjóraefni Samfylkingarinnar hefur lýst því yfir að það komi ekki til greina að gefa eftir borgarstjórasætið í samningum við framsóknarmenn, frjálslynda eða vinstri græna. Þetta er mikilvæg yfirlýsing fyrir borgarbúa. Þar með er tryggt að lýðræðið verður látið ráða en sú hætta vofir ekki yfir borgarbúum að flokkar með stuðning 5-10% borgarbúa geti sett Samfylkingunni úrslitakosti..." Úrslitakostirnir í huga formanns Samfylkingarinnar virðast með öðrum orðum snúast um stóla fremur en málefni. Athygli  vekur að Ingibjörg Sólrún segir að á laugardag verði kosið um borgarstjóra. Ég hélt að við værum að kjósa um mismunandi pólitískar áherslur. Og hvaða endemisrugl er þetta um 5-10% flokka? Eru skoðanakannanir ekki að spá VG yfir 15%? Samkvæmt síðustu könnunum stendur baráttan nú á milli 8. manns Sjálfstæðisflokksins og 3. manns á lista VG. Ef VG hefur betur og Þorleifur Gunnlaugsson nær kjöri, auk þeirra Svandísar og Árna Þórs, er hættan á hreinum meirihluta Íhaldsins úr sögunni. Þetta væru mikil og góð tíðindi fyrir borgarbúa því þau hefðu pólitíska þýðingu. Hitt er dapurlegt að oddvitar Samfylkingarinnar skuli á síðustu metrum kosningabaráttunnar verja kröftum sínum í að níða skóinn niður af Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Það stendur jú til að við störfum saman að afloknum kosningum - eða er ekki svo?