Fara í efni

KRÖFTUGUR BARÁTTUFUNDUR VINSTRIHREYFINGARINNAR GRÆNS FRAMBOÐS Í REYKJAVÍK

Vinstri græn í Reykjavík efndu til kosningahátíðar í Borgarleikhúsinu í kvöld. Frábærir listamenn komu fram og stórkostlega innblásnar ræður voru fluttar. Andinn fór á flug. Kolbrún Halldórsdóttir stýrði samkomunni með glæsibrag. Árni Bergmann flutti hátíðaræðuna. Ekki hefði ég viljað missa af henni. Ekki veit ég hvað hann var lengi að semja hana en mér varð hugsað til fyrirlesara sem ég hlýddi á við Edinborgarháskóla fyrir 35 árum eða þar um bil. Ræða hans var brilljant. Hann var spurður hve langan tíma það hefði tekið hann að semja ræðuna. Hann hugsaði sig um eitt augnablik og sagði svo: It took me a lifetime - það tók mig lífið!

Árni tengdi saman nútíð og fortíð – hann miðlaði til okkar af langri reynslu og mikilli visku. Hann skýrði það fyrir okkur hve mikilvægt það væri að smíða brúna á milli veruleikans og hugsjónanna. Þótt við komumst aldrei alla leið í land vonarinnar, sagði hann, þá miðar okkur áleiðis ef við erum trú hugsjónum okkar.

Flutningur úr Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum var magnaður. Ég sat við hliðina á Drífu Snædal frænku minni og vinkonu. Í fangi hennar sat Silja litla dóttir hennar og langafabarn Jóhannesar. Þar var komin enn ein brúin á milli þess sem liðið er og þess sem er. Á myndvörpum birtust myndir frá átökum fyrri tíðar – úr baráttunni fyrir sjálfstæðu Íslandi; Íslandi með reisn. Og upp í hugann kom annar langafi Silju, Stefán Ögmundsson prentari, í langan tíma forystumaður íslenskra prentara, um skeið varaforseti ASÍ, og einn magnaðasti baráttumaður félagslegra gilda sem ég hef kynnst; reyndar svo kröftugur að íhaldið lagði á sig allt sem mögulegt var til að reyna að eyðileggja líf hans og vísa ég þar í ljúgvitnin sem leidd voru fram gegn honum og Jóni Múla vegna atburðanna við Alþingishúsið 30. mars 1949, nokkuð sem orðið er aktúelt að nýju eftir upplýsingar um hleranir og ofsóknir á kaldastríðstímanum.

Þetta voru hugrenningarnar. Ég ætla ekki að tíunda allt sem fram fór á samkundunni. Árni Þór flutti mjög góða og innihaldsríka ræðu. Ég klappaði mig rauðan í lófana. Það gerði Svandís Svavarsdóttir líka. Hún flutti eldheita ræðu. Það mátti heyra saumnál detta - þar til við fögnuðum. Svandís talaði um fortíðina, nútíðina og framtíðina. Hún talaði viturlega um fortíðina, vildi draga af henni lærdóma. Um nútíðina talaði hún af yfirvegun og einnig um framtíðina. Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að þangað ætti Svandís erindi. Inn í framtíðina. Mikið erindi!


Stúlknasveitin Byssupiss