Fara í efni

SÝNUM FRAMSÓKNARFLOKKNUM MISKUNNSEMI

Ég neita því ekki að í nokkra daga vorkenndi ég Framsóknarflokknum og formanni hans. Allt gekk úrskeiðis. Óheppni virtist elta flokk og formann á röndum. Formaðurinn sagði af sér á tilfinningaþrungnu augnabliki eftir sveitarstjórnarkosningarnar, tilnefndi síðan eftirmann sem samstundis var hrópaður niður. Hver mistökin ráku önnur!
Síðan koma kartöflurnar og ýsan; hin daglega önn, sem færir okkur jarðtenginguna. Það rennur upp fyrir okkur að ógæfa Framsóknarflokksins hefur ekkert með óheppni að gera. Og upp í hugann kemur meðal annars stóriðjuþjónkunin, krossferðin gegn náttúru landsins í þágu erlendra auðhringa, einkavinavæðingin, Írakshneykslið alræmda og margt fleira. Auðvitað er Framsókn að uppskera eins og til var sáð.

Það er ekki óheppnin sem veldur vandræðum Framsóknar og formanns hennar, heldur stjórnmálastefna flokksins sem nánast allir hafa óbeit á – nema náttúrlega Íhaldið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur notað Framsókn til að framkvæma stefnu sína í tíu ár. Svo trú er Framsókn orðin þessari stefnu að hún telur hana vera sína. Þegar hún selur og gefur landið, þegar hún einkavinavæðir, þegar hún leggst undir Bush stjórnina bandarísku, fasíska og heimsvaldasinnaða einsog hún er, þá telur Framsókn þetta vera stefnu Framsóknarflokksins. Og auðvitað má það til sanns vegar færa. Þetta er sú stefna sem Framsóknarflokkurinn hefur fylgt í áratug. Framsóknarflokksstefnan er hægra megin við það sem Sjálfstæðisflokknum hefur þótt boðlegt að boða opinberlega og út á við.
Það hlutverk hefur Framsókn hins vegar tekið að sér – í skiptum fyrir ráðherrastóla. Og nú þegar Framsókn fær einn slíkan stól í viðbót er ástæða til að hafa af því nokkrar áhyggjur að flokkurinn gerist jafnvel enn auðsveipari þjónn Sjálfstæðisflokksins en til þessa ef það þá á annað borð er hægt!

Að sumu leyti var það táknrænt að félagshyggjumaðurinn Jón Kristjánsson skyldi nú ákveða að ganga út úr ríkisstjórn. Hann hefur látið sig hafa það hingað til að halda sig á dallinum en er nú greinilega búinn að fá sig fullsaddan af þessari útgerð.

Framsókn er búin. Hún er orðin helköld lýðræðissnauð hagsmunasamkunda – gersneydd öllu sem heitir pólitísk hugsjón. Á meðal kjósenda fjölgar þeim sem koma auga á þetta. Nú er spurningin hvort flokknum verði veitt sú líkn og náð að fá hvíld frá frekari þjáningum. Það verður á valdi kjósenda í komandi alþingiskosningum. Ef kjósendur sína miskunnsemi verður Framsókn ekki á meðal vor eftir þær kosningar.