Fara í efni

ATHYGLISVERÐ FRÁSÖGN ODDVITA VG Í SKAGAFIRÐI

Að undanförnu hafa birst skrif sem ættuð eru innan úr Stjórnarráðinu um stóriðjustefnuna, sem gefa þá mynd  að ríkisstjórnin kunni að hafa farið offari. Átakanlegasta birtingarmynd þessa er sú yfirlýsing forsvarsmanna Framsóknarflokksins að flokkurinn hafi síðustu þrjú árin verið umhverfisvænn og ekki viljað skerða strá í íslenskri náttúru! Menn stóðu og göptu við þessi tíðindi, minnugir þess að ekki er  lengra síðan en í fyrra að fyrrverandi iðnaðarráðherra, núverandi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fór um landið falbjóðandi íslenskar náttúruperlur fjölþjóðlegum álrisum.
Getur verið að eftir alla álþjónkunina á undanförnum árum takist kamelljóninu Framsókn að telja kjósendum í komandi kosningum trú um að flokkurinn sé umhverfisvænn í meira lagi?
Hvað sem þessu líður þá fjölgar þeim, sem sjá eftir því að Kárahnjúkasvæðinu skuli hafa verið fórnað og segja að nú sé nóg komið.
En er það svo í raun? Hér á síðunni birtist afar áhugaverð grein eftir forsvarmann Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði, Bjarna Jónsson. Hann bendir á að jökulsárnar í Skagafirði séu engan veginn úr hættu. Virkjunarflokkarnir, Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking hafi öll lýst sig fylgjandi virkjun ánna. Virkjunarrétturinn sé hjá Kaupfélagi Skagafjarðar og hinu hlutafélagavædda Rarik en þessir aðilar sóttu fast að fá þennan rétt.
Bjarni Jónsson lýsir ferð með útlendu fólki þar sem farið var í fljótasiglingu í ánum. Á meðal ferðamanna var ritstjóri New York Times. Hann var gáttaður þegar hann heyrði að áform væru uppi um að eyðileggja árnar, fórna þeim fyrir erlenda álrisa. Hann sagði: "Þið megið ekki láta þetta gerast, þið verðið að upplýsa fólk um hvað er í húfi. Takist það mun aldrei verða af slíkum áformum“. Það er nú það. Er það í alvöru svo að áfram eigi að halda á þessari braut? Er ekkert að marka öllu skrifin um nauðsyn náttúruverndar? Eru stóriðju/virkjunarflokkarnir, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking enn við sama heygarðshornið? Þurfa fréttamenn ekki að spyrja kandídata sem sækjast eftir áhrifastöðum í Framsókn hvort þeir vilji fórna jökulsánum í Skagafirði? Er til of mikils mælst að þetta fólk sé látið svara þessu hreint út?
Ég hef grun um að fleirum en ritstjóra New York Times þættu svörin áhugaverð.
Sjá grein Bjarna Jónssonar HÉR.