Fara í efni

ENN UM FJÖLMIÐLALAGAFARSANN

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil, sem ég birti hér á síðunni – og var í kjölfarið birtur í Blaðinu – um forsetaembættið og fjölmiðlalögin.

Þetta varð mér síðan tilefni til þess að fletta upp blaðaskrifum frá þessum tíma. Ekki verður sagt að málið eldist vel. Allt havaríð sem uppi varð í pólitíkinni þegar forsetinn neitaði að skrifa undir hið umdeilda stjórnarfrumvarp virkar jafnvel enn fáránlegra eftir því sem tíminn líður og á án efa eftir að verða mönnum mikið undrunarefni þegar fram líða stundir. Sjaldan hefur ein ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar orðið sér eins rækilega til skammar og þá.

Svo forstokkaðir voru forkólfar ríkisstjórnarinnar; svo staðráðnir voru þeir að hafa að engu rétt þjóðarinnar til að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þeir diktuðu það upp, að því aðeins gæti þjóðaratkvæðagreiðsla orðið gild, að tilteknum skilyrðum væri fullnægt, til dæmis ætti hreinn meirihluti ekki að gilda. Ekki nóg með það, sú hugmynd kom fram af þeirra hálfu að kosningaþátttaka yrði að vera yfir 75% til þess að hún teldist yfirhöfuð gild.

Nú er það eitt að vilja setja slíkar reglur og slík skilyrði. Hitt var aftur staðreynd að þessar reglur voru ekki til annars staðar en í hugarfluginu hjá forkólfum ríkisstjórnarinnar.
Lögfræðihópur sem þeir skipuðu reyndist húsbændum sínum hollur og sagði í greinargerð um málið að "rík efnisleg rök" væru fyrir því að setja skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að hún teldist marktæk. Hins vegar væri ekki hægt að fullyrða að slíkar takmarkanir stæðust stjórnarskrá!: "Starfshópurinn tekur þó fram,  að þeim mun hóflegri sem takmörkun af þessu tagi er, þeim mun líklegra verður talið að hún  fái staðist..." Eða með öðrum orðum, því vægar sem menn færu í sakirnar því líklegra að þeir kæmust upp með stjórnarskrárbrotið!

En hvaða ályktanir er hægt að draga af deilunni um fjölmðilafrumvarpið?

Í fyrsta lagi, að sú ríkisstjórn sem nú situr er reiðubúin að hagræða sannnleikanum til að ná fram markmiðum sínum.

Í öðru lagi, hve ótrúlega fylgispekt stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sýnir foringjum sínum þegar fyrirskipað er að allir gangi í takt. Ég trúi því ekki enn að allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi í reynd talið málatilbúnað þeirra Davíðs og Halldórs varðandi málskotsrétt forseta, sannfærandi. Og hvað með Kárahnjúka, einkavæðinguna, vatnið, öryrkjamálið, gagnagrunnsmálið, Ríkisútvarpið...Hversu oft hefur sannfæring og samviska ráðið för og hve oft flokkssvipan?

Í þriðja lagi hve varasamt það getur verið að taka lögfræðilegar álitsgerðir sem heilagan sannleika, þegar í hlut eiga pólitískt skipaðir lögfræðingar sem eru undir þrýstingi að komast að tiltekinni niðurstöðu.

Í fjórða lagi hve mikilvægt er að geirnegla í stjórnarskrána stóraukinn rétt þjóðarinnar til að kjósa beint og milliliðalaust um mikilvægustu mál sem uppi eru hverju sinni.

Greinar um efnið m.a. HÉR og HÉR og  HÉR og HÉR og HÉR