Fara í efni

SVONA ER LÍFIÐ STUNDUM SKRÍTIÐ


Í morgun sat ég þingflokksfund VG þegar inn á fund okkar kom hringing þar sem óskað var eftir því að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fulltrúi þingflokksins í iðnaðarnefnd Alþingis kæmi í Kastljós Sjónvarps í kvöld og ræddi þar við Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, um yfirhylminguna á skýrslu Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings, og þátt Valgerðar þar. Steingrímur tók þessu fagnandi og kvað sjálfsagt  að mæta.

Ég hugsaði með sjálfum mér, að ólíklegt væri að af þessu sjónvarpseinvígi yrði og hafði ég þá þegar einnig miklar efasemdir um að Valgerður vogaði sér inn á fund iðnaðarnefndar sem boðaður hafði verið í dag, en þar hafði einnig verið óskað eftir nærveru hennar.

Og það fór sem mig grunaði. Valgerður mætti ekki á iðnaðarnefndarfundinn og var síðan ein í Kastljósþættinum!
Valgerður Sverrisdóttir sat líka ein fyrir svörum fréttamanna Hljóðvarps í fréttatíma kvöldsins. Þar skýrði hún hvers vegna óþarfi hefði verið fyrir sig að mæta á iðnaðarnefndarfundinn: "Ég hef ekkert að segja, sem embættismenn geta ekki svarað", sagði fyrrverandi iðnaðarráðherra!

Valgerður Sverrisdóttir
virðist ekki átta sig á því, að nærveru hennar er ekki óskað til þess að ræða tæknileg efni heldur til þess að ræða pólitíska aðkomu hennar að málinu og pólitíska ábyrgð hennar. Það er alvarlegt að ráðherra skuli neita að verða við óskum um að svara fyrir sig í þingnefnd í jafn stóru máli og óneitanlega er það vesælt að þora ekki að mæta gagnrýnendum sínum í rökræðum í sjónvarpsþætti.

Nú segir Valgerður Sverrisdóttir, að hún hafi ekki sjálf séð þessi gögn á sínum tíma, aðeins vitað um þau. Síðan er á henni að skilja að efni skýrslunnar hafi ekki verið af pólitískum toga: "Þetta var ekki pólitísk ákvörðun."

Allt ber að sama brunni. Hin pólitíska ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var tekin í Framsóknarflokknum fyrir margt löngu. Eftir það virðast röksemdir skipta ráðherra Framsóknar engu máli, þær komi pólitíkinni ekkert við. Þær séu bara fyrir embættismenn að glíma við; þeir eigi að svara öllum tæknilegum álitamálum, eins og hvort jarðfræðilegar eða efnahaglsegar forsendur hafi verið fyrir því að ráðast í þessar framkvæmdir!

Þetta háttalag ráðherrans minnir óneitanlega á annan stjórnmálamann. Sá maður heitir George Bush og er nú forseti Bandaríkjanna. Bush sagði á ríkisstjórnarfundi í upphafi forsetaferils síns, samkvæmt Paul O´Neill, sem þá gegndi embætti fjármálaráðherra, að pólitísk ákvörðun hefði verið tekin um að hernema Írak. Þetta höfum við ákveðið, sagði forsetinn, ykkar hlutverk er að finna fyrir mig réttlætinguna: "Find me the reasons".

Það er svolítið skondin tilviljun, sem þó kemur þessu máli ekkert við að Paul þessi O´Neill, sem síðar hrökklaðist úr stjórn Bush vegna stjórnarhátta hans, þar með talið ósannindanna um Írak, var á sínum tíma forstjóri Alcoa. Eins og kunnugt er þá er það sama fyrirtæki og nú nýtur þess að eiga Framsóknarflokkinn íslenska að. Svona er lífið stundum skrítið.

.