Fara í efni

ÞING FRAMSÓKNARFLOKKSINS OG TÚLKUN MORGUNBLAÐSINS

Lokið er sögulegu þingi Framsóknarflokksins. Magnað var að fylgjast með slagsmálum nokkurra helstu forkólfa flokksins um embætti. Í orði kveðnu, úr ræðustólnum, voru allir kandídatar miklir vinir og allt var þetta, að þeirra sögn, ein allsherjar veisla lýðræðisins. Þó var ekki verið að takast á um neitt nema langanir nokkurra einstaklinga til að skipa stöður og embætti í Framsóknarflokknum. Að vísu verður að segjast eins og er, að eftirsókn í embætti og vegtyllur í Framsókn gengur út á annað og meira,  því embætti í æðstu stjórn þessa stjórnmálaflokks kjötkatlanna, er ávísun á ráðherraembætti komist flokkurinn í Stjórnarráðið.

Ráðherraefnin komu "sterk út"

Í þessu ljósi verða skiljanlegar yfirlýsingar kandidatanna, bæði þeirra sem unnu og einnig hinna sem töpuðu. Ég kem mjög sterk út úr þessu, sagði Jónína Bjartmarz, sem tapaði fyrir Guðna, nokkuð sem hann tók undir af annáluðu lítillæti: Jónína hefur styrkt stöðu sína við að glíma við mig, sagði landbúnaðarráðherra. Og Siv Friðleifsdóttir, hún kom að eigin sögn geysilega sterk út úr slagnum við Jón Sigurðsson, örugg um áframhaldandi ráðherraembætti, átu fréttaskýrendur margir upp! Ef við nú látum ágæti Sivjar liggja á milli hluta sem einstaklings og manneskju, þá er það nú samt einu sinni svo að hún er enginn nýgræðingur í pólitík. Hún hefur greitt götu allrar einkavæðingarinnar og sem umhverfisráðherra á sínum tíma var hún einhverju sinni kölluð ljósmóðir Kárahnjúkavirkjunar og hefði sem formaður Framsóknarflokksins aldrei sloppið frá því að svara fyrir Írak og S-hópinn  og önnur gælu/spillingar verkefni flokksins á undanförnum árum. Þetta skyldu þeir hafa í huga sem telja að Framsókn hefði misst af miklu tækifæri með því að velja ekki Siv sem formann.

Rangt að hafa sigurinn af Jóni

Jón Sigurðsson naut stuðnings þess kjarna sem farið hefur með völd í Framsóknarflokknum undanfarinn rúman áratug. Þar var hins vegar á brattann að sækja fyrir Siv og má eflaust færa rök fyrir því að hún hafi náð ágætum árangri miðað við aðstæður. Nokkuð þykir mér þó ósanngjarnt hvernig fréttatúlkendur reyna nánast allir að hafa sigurinn af Jóni Sigurðssyni, sem þegar öllu er á botninn hvolft, bar sigur úr býtum, gamalreyndur maðurinn að vísu, en nýr á sviði hinna opinberu stjórnmála þar sem andstæðingurinn hefur haft á sér kastljósin í vel rúman áratug.
Síðan er það Sæunn, ritari. Hún reiknaði rétt: Að karlarnir – flestir – myndu víkja, ef og þegar tveir af þeirri tegundinni væru komnir í stóla formanns og varaformanns. Hins vegar þarf Sæunn Stefánsdóttir ekki að reikna neitt út á makkíavellíska vísu. Hún hefur sýnt með verkum sínum að hún á fullt erindi inn á vettvang stjórnmálanna.
Þá er komið að Mogganum. Hann veit nokk hvað klukkan slær hjá Íhaldinu og er iðulega barki Sjálfstæðisflokksins.

 Vinstri vending en gamla þreytta spillta Framsókn við sama heygarðshornið

Á sama tíma og flestir stjórnmálaskýrendur segja að ekkert hafi breyst hjá Framsókn í þeim málum sem skipta máli pólitískt: umhverfisstefnan sú sama, stóriðjustefnan, utanríkisstefnan, skattastefnan, misréttisstefnan, einkavæðingarstefnan, allt við það sama - þá segir Moggi engu að síður, að nú sé allt breytt. Framsókn sé að nýju orðinn eftirsóknarverður valkostur í ríkisstjórn eftir næstu kosningar! Þetta skín út úr leiðurum Morgunblaðsins hverjum á fætur öðrum.
En hver skyldi raunveruleikinn vera? Nú þykist ég vita að Jón Sigurðsson hafi verið náinn ráðgjafi Halldórs Ásgrímssonar - þess manns sem í seinni tíð hefur gengið hægri plankann. Mér býður þó í grun að hjarta Jóns Sigurðssonar sé vinstrisinnaðra og að mörgu leyti nær landbúnaðar-Guðna en frjálshyggjuarmi Framsóknar. Sæunn Stefánsdóttir hefur að mínu mati ágætan skilning á félagslegum gildum í velferðarþjónustunni. Ef þetta er rétt, þá er Framsókn – ef eitthvað er – að feta sig til vinstri. Þess vegna furða ég mig á afstöðu Morgunblaðsins. Nema að Moggi treysti því að þrátt fyrir vinstri vendingar megi treysta því að Framsókn verði áfram gamla íhaldshækjan þegar á reynir: Þegar slátra eigi Íbúðalánasjóði, gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, þjóna haukunum í Washington eða Alcoum þessa heims, þá megi alltaf treysta á Framsókn. Það eina sem þurft hafi að breytast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti stutt sig við Framsókn áfram, sé smá andlitslyfting. Mogginn telur að hún hafi tekist. Um það hef ég efasemdir. Miklar.