Fara í efni

HVERS VEGNA JBH Á AÐ BIÐJAST AFSÖKUNAR

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar pistil í Fréttablaðið í dag þar sem hann vísar því á bug að sér beri að biðja Svavar Gestsson afsökunar eins og ég hafði farið fram á í grein í sama blaði. Af viðbrögðunum að dæma virðist Jón Baldvin vera blindur á það sem málið snýst um. Það snýst um siðferði í stjórnmálum og öndverðuna einnig: siðleysi.
Kjarninn er eftirfarandi:
1. JBH lét kanna hjá erlendum leyniþjónustumönnum feril manns sem sat með honum í ríkisstjórn. Hann lét þennan meðráðherra sinn ekki vita. Það er siðleysi.
2. JBH lét meðráðherra sinn ekki vita þegar könnuninni var lokið þó þeir sætu áfram saman í ríkisstjórn hlið við hlið. Í könnuninni kom þó fram að SG var eiginlega þríheilagður: Þrjár leyniþjónustur höfðu svarað til um íslenska námsmenn austantjalds: Vestur-þýsk, CIA og íslenska leyniþjónustan.
3. Hann lét SG ekki vita um niðurstöðuna þegar pólitískir andstæðingar hans neru honum því um nasir að hafa unnið fyrir Austur-Þjóðverja og lugu upp á hann fádæma óþverrahætti í ljósi þessa.
4. Hann lét SG ekki vita um niðurstöðuna þegar mynd af honum var birt á kápu bókarinnar Liðsmenn Moskvu - sem út kom um miðjan tíunda áratuginn - og þar með gefið í skyn að þar færi sérlegur agent Kremlar. Í bókinni var ekkert fjallað um SG en eftir sat myndin.
5. Hann lét SG ekki vita um niðurstöðuna þegar gerður var heill sjónvarpsþáttur rétt fyrir kosningarnar 1995 þar sem sömu dylgjum var flaggað frammi fyrir alþjóð.

Í gegnum tíðina, aftur og aftur, var Svavar Gestsson bendlaður við landráð af andstæðingum sínum. Hvorki Jón Baldvin Hannibalsson né Steingrímur Hermannsson sáu þó minnstu ástæðu til að stíga fram til þess að lýsa því yfir að ekki væri flugufótur fyrir ásökunum í garð Svavars; hann væri saklaus af áburði andstæðinga sinna.

Aldrei datt okkur annað í hug né þeim tugþúsundum Íslendinga sem studdu SG pólitískt. En það segir sig sjálft að það hlýtur að hafa verið sárt fyrir SG að sitja undir þessum áburði.
Svo gerist það loksins nú, 17 árum síðar,  - eins og Margrét Frímannsdóttir benti á í sjónvarpsþætti – að vitnisburðurinn um sakleysi kemur fram fyrir tilverknað Róberts Trausta Árnasonar og Þórs Whitehead.
JBH heldur að hann eigi að biðjast afsökunar á því að hafa látið kanna Stasi-skjöl. Það er ekki rétt. Hann á að biðjast afsökunar á því að hafa látið kanna einn nánasta samstarfsmann sinn sérstaklega. Hann neitar því að vísu. Segjum að það standist – sem þá þýðir að Róbert Trausti Árnason fer með ósannindi, nokkuð sem ég get að sjálfsögðu ekki fullyrt um þótt mér finnist yfirlýsingar JBH ekki beinlínis renna stoðum undir að svo sé; en látum það vera. Það sem hann á að biðjast afsökunar á er að láta ekki Svavar Gestsson vita því að andstæðingar hans notuðu einmitt þetta mál til að níðast á honum á annan áratug. Það getur verið að Jón Baldvin skilji ekki þessa mynd: Einhver - ekki Svavar Gestsson - heldur einhver er borinn þungum sökum og mannorð hans flekkað með ósæmilegum hætti árum saman. Þú veist að sakirnar eru upplognar en þú ferð samt ekki til að aðstoða þann mann sem er borinn sökunum.
Ég hefði haldið að allir skildu einmitt þessa mynd:  Maður, einhver maður er beittur ofbeldi fyrir augunum á þér. Þú gengur ekki fram til að hjálpa viðkomandi þótt þú gætir það heldur stendur þú hjá og lætur berja manninn frammi fyrir þér afskiptalaust.

Ég á erfitt með að trúa öðru en Jón Baldvin Hannibalsson skilji mætavel hvað hér er átt við. Hann væri maður að meiri ef hann bæðist afsökunar á framferði sínu. Kunni hann hins vegar ekki að biðjast afsökunar er lítið við því að gera. Eftir stendur að mannorð manna, sem um áratugaskeið hefur skipulega verið auri atað, hefur nú verið hreinsað. Það eru tíðindin sem máli skipta; ekki hitt hversu stórir eða smáir samferðamennirnir hafa reynst í raun. Það er önnur saga.