Fara í efni

KRAFTMIKIL ÞINGBYRJUN

Í dag kom Alþingi saman til fundar eftir sumarhlé. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði þjóðina standa á tímamótum. Að baki væri ein hatrammasta deila Íslandssögunnar, sem varað hefði í rúma hálfa öld. Herseta Bandaríkjamanna hefði skipt þjóðinni í fylkingar sem iðulega hefði leitt til óvináttu og jafnvel haturs á milli manna.
Þessar innbyrðis deilur hefðu dregið mátt úr þjóðinni. Það ættum við að láta okkur að kenningu verða. Íslendingar ættu nú að byrja á hreinu borði og leita eftir víðtækri sátt um mótun stefnu sem tryggði öryggi þjóðarinnar.
Forseti Íslands varaði einnig við því að stóriðju- og stórvirkjanastefnan gæti að nýju skipt þjóðinni í fylkingar ef ekki væri gætt að. Þetta eru orð að sönnu og umhugsunarverð. Að sjálfsögðu eigum við að sækjast eftir samstöðu og forðast sundurlyndi eftir því sem kostur er.
Stórtíðindi dagsins voru svo yfirlýsingar stjórnarandstöðuflokkanna um að leggja í sameiningu fram mál sem snerta grundvallaratriði: Almannatryggingar, náttúruvernd, jafnréttismál, raforkumál og utanríkismál. Frá þessu var skýrt á sameiginlegum fréttamannafundi í svokölluðu "ríkisstjórnarherbergi" í þinghúsinu í dag.
Ef til vill var fundarstaðurinn táknrænn um það sem koma skal eftir þingkosningarnar í vor.
Stjórnarandstaðan er einhuga um að berjast fyrir grundvallar stefnubreytingu við stjórn landsins, þannig að snúið verði af þeirri óheillabraut sem við höfum verið á undanfarin ár og leitt hefur til vaxandi ójöfnuðar í samfélaginu. Til að ná fram þessu markmiði þarf að skipta um ríkisstjórn. Fái stjórnarandstaðan meirihluta eftir næstu kosningar hlýtur það að skoðast sem áskorun þjóðarinnar um að hún taki við landstjórninni.
Að mínu mati eru verulegar líkur á því, að þegar að afloknum þingkosningum, 5. maí næstkomandi, hefjist stjórnarmyndunarviðræður núverandi stjórnarandstöðuflokka. Auðvitað er til í dæminu að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fái áfram meirihluta. Ef svo fer er ekkert sem bendir til annars en þessir flokkar haldi samstarfi sínu áfram. Skyldi vera áhugi fyrir því í landinu? Vilja menn fjórða kjörtímabil Íhalds og Framsóknar? Ætli þjóðin sé ekki búin að fá sig fullsadda á þessum einkavæðingar- og landspjallaflokkum sem æsa og örva það versta í fari hvors annars? Ekki trúi ég öðru.