Fara í efni

ÓSPRUNGIN SPRENGJA ÞÓRS WHITEHEAD

Grein Þórs Whitehead, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu síðastliðinn miðvikudag þar sem hann segir að þeir Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson hafi látið kanna hvort samráðherra þeirra, Svavar Gestsson, hafi haft samskipti við austur-þýsku leyniþjónustuna, STASI, er sem sprengja inn í íslenska þjóðmálaumræðu. Það sem ég furða mig helst á er hve lítil viðbrögðin hafa enn orðið við upplýsingum Þórs Whitehead og má því segja að sprengjan sé enn ósprungin.

Öryggisþjónusta utan laga og réttar?

Í greininni koma fram upplýsingar um að fulltrúa Íslands hjá NATÓ hafi verið falið – vísvitandi framhjá íslenskum lögregluyfirvöldum - að afla upplýsinga um einstaklinga vegna grunsemda um landráð. Var sú aðferð sjálfsögð og eðlileg og rúmaðist hún innan ramma íslenskra laga og réttar? Þetta verður að kanna ofan í kjölinn. Þá kemur fram í grein sagnfræðingsins að hér hafi verið starfandi leynileg íslensk öryggisþjónusta. Ljóst er að þessi leyniþjónusta hefur verið (og er enn?) starfrækt án heimilda og vitneskju Alþingis og ríkisstjórnar, nema þá hugsanlega aðilja af réttum pólitískum lit. Sá pólitíski litur var ekki litur Svavars Gestssonar.

Svikabrigsl í pólitískum tilgangi

Af þessu tilefni koma mér í hug skrif Jóns Ólafssonar prófessors í heimspeki við Háskólann á Bifröst í Lesbók Morgunblaðsins 8. júlí síðastliðinn. „Hversu kalt var stríðið?“ er yfirskrift greinar Jóns og kemst hann að þeirri niðurstöðu að kaldastríðs-pólitíkin hafi einkennst af svikabrigslum og þá ekki síst ásökunum um að ganga erinda erlendra stórvelda. Þetta hafi markað ramma stjórnmálaumræðunnar og hafi verið “stöðug uppspretta raka sem stjórnmálamenn beittu hver gegn öðrum í baráttu um völd og áhrif ... Það mætti kannski segja að opinber umræða á kaldastríðsárunum hafi einkennst af einelti öðru fremur.”

Eineltið náði inn í Stjórnarráðið

Nú hefur komið á daginn að eineltispólitíkin náði inn í Stjórnarráðið fyrir aðeins hálfum öðrum áratug. Róbert Trausti Árnason, sem beðinn var um að kanna hugsanleg tengsl Svavars Gestssonar við austur-þýsku leyniþjónustuna STASI, segist hafa verið „tregur til verksins“ af því að hann hafi ekki fengið að vita hvernig ætti „að nota hugsanlegar upplýsingar um mögulega íslenska erindreka STASI.“
Það er von að maðurinn spyrji og er verðugt viðfangsefni sagnfræðinga að skoða þetta í samhengi við pólitíska umræðu á þessum tíma.  

Mikilvægar upplýsingar fyrir alla þá sem aldrei fengu að njóta sannmælis 

 Í fyrrnefndri grein Jóns Ólafssonar segir: „Pólitísk átök kaldastríðsáranna voru hatursfull og ofbeldisfull ... Þessi átök sköpuðu stjórnmálunum orðræðuramma sem gróf undan vitlegri umræðu og spillti fyrir því að tekist væri á um málefni á heilbrigðan hátt eða að stuðlað væri að góðum, vel rökstuddum og skynsamlegum ákvörðunum. Þau komu líka í veg fyrir að einstaklingar nytu sannmælis eða fengju að njóta sín, hvort heldur var á hinum pólitíska vettvangi eða ýmsum öðrum sviðum samfélagsins“.
Það góða við grein Þórs Whitehead er að hún hreinsar fjölmarga einstaklinga sem um áratugaskeið hafa þurft að sæta því að vera brigslað um að vera erindrekar austur-þýsku leyniþjónustunnar. Þór Whitehead hefur það eftir Róberti Trausta Árnasyni að hann hefði fengið það staðfest hjá vestur-þýsku leyniþjónustunni „að STASI hefði enga íslenska trúnaðarmenn á sínum snærum og hefði aldrei haft. Þetta vissi íslenska öryggisþjónustan mætavel.”