SKULDIN VIÐ BIRGI

Birtist í Blaðinu 01.12.06.
Það má segja að ég skuldi Birgi Ármannssyni, alþingismanni, skýringu og er þessi litla grein tilraun til að gera þá skuld upp. Birgir lagði það nefnilega á sig í grein í Blaðinu fyrir skömmu að reyna að koma fyrir mig vitinu hvað varðar viðhorf til efnahagslífsinis. Þetta hlýtur að teljast mikið gustukaverk, ekki síst í ljósi þess hve Birgir Ármannsson, alþingismaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, taldi skoðanir mínar vera út úr kú. Ég hafði látið þau ummæli falla að fjármálamenn sem vildu segja samfélagi sínu fyrir verkum gætu gott eins vel hypjað sig úr landi. Nú vill svo til að Birgir Ármannsson er einhver vandaðasti maður sem situr á Alþingi Íslendinga, greindur og góðgjarn. En svo sleginn er hann pólitískri blindu að sjónarhornið nær aldrei lengra út fyrir Valhöll en nemur einni spönn eða svo. Þetta er veruleiki Birgis Ármannssonar og þá einnig veikleiki hans og að sjálfsögðu flokks hans einnig, Sjálfstæðisflokksins.

Umræðuefnið er þetta: Okkur berast sí og æ fréttir af fjárfestingarafrekum íslenskra fjármálamanna; þeir eru að gera góða hluti hér, er okkur sagt, og góða hluti þar. Margt af þessu er satt og rétt. Þannig eru Bakkavararbræður, svo dæmi sé tekið, að mínu mati dæmi um fjárfesta og frumkvöðla sem eru að gera mjög góða hluti. Bakkavararbræður eru ekki aðeins að fjárfesta skynsamlega heldur eru þeir einnig að beita sinni frjóu hugsun til að skapa nýtt!

Svo er hitt að sumar fjárfestingar "okkar" orka mjög tvímælis. Einkum hef ég áhyggjur af fjárfestingum í vanþróuðum löndum þar sem pólitísk spilling er landlæg og fátækar þjóðir geta illa borið hönd fyrir höfuð sér þegar vestrænir auðmenn seilast í pyngjur þeirra. Ástæða er til að athuga fyrir stjórnendur íslenskra lífeyrissjóða hvort fjárfestingar þeirra eru siðlegar og móralskt verjanlegar. Til þess þarf mun meiri upplýsingar og gegnsæi. Um fjárfestingar í löndum þar sem stjórnarfari er mjög ábótavant þarf að fjalla sérstaklega, ekki síður en þróunaraðstoð. 

En að efninu: Íslenskir fjármálamenn eiga að sýna varúð og ábyrgð. Þeir eiga velgengni sína að þakka okkar góða og gjöfula samfélagi. Stundum hef ég haft það á tilfinningunni að "fjárfestingarséníin" okkar haldi að allt snúist þetta um 8 brilljant stráka, kannski 10 talsins - afburðasnjalla í fjárfestingum. En þá spyr ég: Hvar væru þeir staddir ef þeir hefðu ekki fengið upp í hendur ríkisbankana, sjóði atvinnulífsins (þ.e. FBA), kvótagjafir, að ógleymdum lífeyrisssjóðunum sem pumpa án afláts milljaðratugum í þeirra hít? Sum okkar hafa af þessu áhyggjur, ekki síst þegar sjálfsmynd forstrjóra Íslands tekur á sig mjög útblásnar myndir - oftar en ekki augljóslega tröllvaxnar ranghugmyndir um eigið ágæti. Og stundum læðist að manni sá grunur að fjárfestingarsnillingarnir taki út eigin gróða í beinhörðum peningum en skilji eftir sýndargróða handa okkur hinum, ef ekki verður haft eftirlit með starfseminni. Í nýlegri könnun um viðskiptaumhverfi, sem birt var þann 27. nóvember, kemur fram að Ísland er í 83. sæti þegar vernd fjárfesta er annars vegar. Þar er átt við hversu vel aðrir, t.d. lífeyrissjóðir, eru tryggðir gagnvart þeim sem ráðstafa fjármununum.

Íslendingar gleðjast jafnan þegar landinn gerir " það gott". Það er út af fyrir sig prýðilegt. En við megum aldrei gleyma því að það skiptir máli hvernig - það er að segja á hvern hátt - við gerum það gott. Þetta snýst ekki um það eitt að maka krókinn.

Enda þótt tónn Birgis Ármannssoar sé oft tiltöllega mildur og þýður - þá er það nú ekki alltaf svo. Hann þyrfti að taka sig á; leggja eyrun niður við grasvörðinn og gerast eitt með því landi og því samfélagi sem skóp hann. Þá mun hann skilja að hagsmunir okkar sem þjóðar, sem samfélags, fara ekki endilega saman við hagsmni auðmanna. Fjallræður peningamannsins eru ekki bestu vegvísar í þessu landi.

Fréttabréf