Fara í efni

ÞINGSKAPAMEIRIHLUTINN Á ALÞINGI


Nýr meirihluti hefur myndast á Alþingi. Þetta er meirihluti ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og Framsóknarflokks og Frjálslyndra. Gagnvart þessum meirhluta stendur stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Vinstrihreyfingin grænt framboð. 

Í kvöld var frumvarp um ný þingskapalög tekið út úr allsherjarnefnd Alþingis gegn hörðum andmælum mínum en fundinn sat ég í fjarveru Atla Gíslasonar, sem sæti á í nefndinni en hann var bundinn við önnur störf. 

Fáheyrt er að reynt sé að gera viðamiklar breytingar á þingskapalögum gegn mótmælum stærsta stjórnarandstöðuflokksins. VG hefur margítrekað lýst vilja til breytinga á þingskapalögum og lagt fram hugmyndir þess efnis, en jafnframt óskað eftir því að þingið gefi sér rúman tíma til að ná niðurstöðu sem óumdeilanlega er til hagsbóta fyrir þingstörfin. Á þetta hefur hinn nýi þingskapameirihluti ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokks og Frjálslyndra ekki fallist og tekið höndum saman um að þvinga málið í gegn með hraði. Öllum frekari viðræðum um útfærslur á frumvarpinu var afdráttarlaust hafnað á fundi allsherjarnefndar í kvöld enda þótt ég hafi þar lagt áherslu á vilja þingflokksins til málamiðlunar og sátta. Frumvarpsins bíður nú önnur umræða í þinginu.

Eftirfarandi er bókun mín á fundi allsherjarnefndar í kvöld:

Ég mótmæli harðlega f. h. þingflokks VG að frumvarp um þingskapalög sé tekið út úr allsherjarnefnd á þessu stigi og ítreka vilja þingflokksins til að leita samkomulags í málinu. Vísa ég til hugmynda sem lagðar hafa verið fram í allsherjarnefnd þar að lútandi. Þær hugmyndir voru settar fram til málamiðlunar og var ítrekað á þessum fundi að þær væru ekki úrslitakostir og væri þingflokkur VG reiðubúinn að ræða allar leiðir sem leitt gætu til samkomulags, þ.m.t. frekari breytingar á ræðutíma og öðrum þáttum sem lúta að vinnulagi í þinginu. Markmiðin hljóti að vera að gera þinghaldið markvissara og lagasetningu vandaðri, en gæta jafnframt að því að skerða ekki möguleika stjórnarandstöðu til að rækja stjórnarskrárbundnar skyldur sínar um að veita framkvæmdavaldinu aðhald.  Lögð var fram formleg tillaga á fundinum af hálfu þingflokks VG um að fastmælum yrði bundið að leiða afgreiðslu málsins til lykta fyrir 8. febrúar nk. Ég lýsi furðu minni á því að tillögum um að ná sátt í þessu mikilvæga máli skuli hafnað og því afdráttarlaust neitað að ræða frekari útfærslur á frumvarpinu. Um þingsköp Alþingis þarf að ríkja víðtæk sátt og breytingar á lögunum á því aðeins að gera að stjórn og stjórnarandstaða geti sætt sig við þær.