AÐFERÐAFRÆÐIN VIÐ EINKAVÆÐINGU HEILBRIGÐISKERFISINS

Birtist í Morgunblaðinu 11.01.08.
Við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólahlé Alþingis reyndi ég ítrekað að fá talsmenn stjórnarflokkanna til að ræða stefnumörkun í heilbrigðiskerfinu með hliðsjón af fjárlögum komandi árs. Beindi ég sérstaklega orðum mínum til forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra auk utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar.
Því miður var ekki mikið á þessari umræðu að græða. Heilbrigðisráðherra kvað málflutning minn vera fyrir neðan virðingu, forsætisráðherra sakaði mig um útúrsnúninga og formaður Samfylkingarinnar virti mig ekki svars.

Skattborgarinn og nýi stórspítalinn í Garðabæ

En hver var röksemdafærsla mín? Hún var og er eftirfarandi: Báðir stjórnarflokkarnir segja að fjármagna eigi heilbrigðiskerfið með skattfé líkt og verið hefur. Á Íslandi er sem kunnugt er tvíþætt kerfi. Annars vegar opinber rekstur og hins vegar einkapraxís sérfræðinga. Hvort tveggja er fjármagnað með skattfé. Þegar læknar opna sérfræðistofu og sjúklingar leita til þeirra er það því skattborgarinn sem opnar veskið. Skiptir þá engu máli hvort sérfræðingarnir eru einir á báti eða margir saman en hið síðarnefnda form ryður sér nú til rúms. Þannig er nú talað um risastóra læknamiðstöð utan um einkarekstur í Garðabæ. Sú starfsemi yrði greidd af okkur skattgreiðendum.
Kemur þá að spurningu minni til forsætisráherra: Er hætt við því að þegar dregið er úr framlagi til opinbers reksturs að fjárstreymið leiti inn í einkarekið form? Jafnvel svo, að þeir sem fallist á að fresta framkvæmdum við Landspítala háskólasjúkrahús tímabundið vegna þenslu séu þar með að skrifa upp á einkarekinn spítala í Garðabæ! Þar hefjist fjárfestar handa um byggingu sjúkrahúss, leigi læknum aðstöðu þar sem þeir svari eftirspurn sem eykst eftir því sem meira er skorið niður við opinbera reksturinn.

Þegar læknar taka pólitískar ákvarðanir

Í þessu samhengi hef ég stundum minnt á það þegar ágætur vinur minn lá með alvarlegt höfuðmein á Borgarspítalanum. Honum var ekið í sjúkrabíl á hina einkareknu miðstöð í Domus Medica í myndatöku því þar voru fullkomnari tæki en Borgarspítalanum hafði verið heimilað að festa kaup á. Hver skyldi hafa greitt fyrir tækin í Domus Medica? Það gerðum við, skattgreiðendur. Þessu kynntist ég þegar læknirinn minn vísaði mér einhvern tíma í Dómus í myndatöku. Ég spurði hvers vegna mér væri ekki vísað á Landspítalann. Læknirinn spurði þá hvort ég vildi heldur fara þangað. Ég játti því og minnti hann á að ákvörðun hans hefði ekki aðeins verið læknisfræðileg heldur jafnframt efnahagsleg og pólitísk. Dómus hafði einfaldlega slegið lán fyrir hinu dýra tæki, þangað var síðan leitað um þjónustu, jafnvel af helstu sjúkrahúsum landsins. Málið var í höfn - á kostnað skattborgarans!

Geir segir mikið í pípunum!

Það sem ég er að færa rök fyrir er að sú formúla sem við höfum komið okkur upp hér á landi er kjörin til einkavæðingar ef yfirstjórn heilbrigðismála í samvinnu við fjárveitingarvaldið er á þeim buxum. Formúlan er þessi: Skattgreiðandinn borgar óháð rekstrarformum sem búa öll við sambærilega réttarstöðu. Síðan er dregið úr fjárveitingum til opinbera rekstrarins, og viti menn, við erum farin að framkvæma það sem formaður Sjálfstæðisflokksins lofaði fjármálaöflunum í Valhöll í haust þegar hann sagði að "ótrúlega miklir möguleikar" væru framundan í heilbrigðiskerfinu og orkugeiranum. (Sjá Morgunblaðið 30. sept. undir fyrirsögninni, Verulegar breytingar í heilbrigðiskerfinu framundan.) Nú ætti að "taka til hendinni". Fyrir hverja skyldu allir þessir "miklu möguleikar" vera og fyrir hverja stóð til "að taka til hendinni"? Augljóslega fyrir þá sem vilja gera heilbrigðisþjónustu að viðskiptum! Þeir virðast eiga góða tíma í vændum, samkvæmt Morgunblaðsfréttinni af Valhallarræðu forsætisráðherra, því samkvæmt honum væri mikið "í pípunum."

Þegjandi samþykki Samfylkingar

Geir H. Haarde sagði að erfitt hefði verið að fá aðra stjórnmálaflokka en Samfylkinguna til þess að styðja stefnu Sjálfstæðisflokksins um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar: Á þessum sviðum "eru ótrúlega miklir möguleikar framundan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið." Er þetta ekki eitthvað sem rétt er fyrir kjósendur Samfylkingarinnar að hugleiða?

Fréttabréf