Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN BYRJAÐUR AÐ EINKAVÆÐA HEILBRIGÐISKERFIÐ

Birtist í Morgunblaðinu 08.01.08.
Á Landspítala er nú unnið að því að einkavæða störf læknaritara. Taldi ég mig hafa fyrir satt að núverandi heilbrigðisráðherra hefði látið þau boð út ganga við embættistöku sína að þar sem því yrði við komið ætti starfsemi sem heyrði undir hans ráðuneyti að vera einkarekin. Á þessu vakti ég athygli á Alþingi en þá brá svo við að ráðherra kvað þetta vera hina mestu firru, hann hefði aldrei látið neitt slíkt út úr sér. Skrítið, því þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins, flokks Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra.
Þetta virðist líka vera stefna sem Niels Christian Níelsen, aðstoðarlækningarforstjóri framfylgir á Landspítala. Níels verkstýrir þar sérstöku átaki um að færa læknaritun á sjúkrahúsinu í hendur einkaaðila.

Fær Veritas Capital læknaritarastörfin?

Í viðtali við fréttamann 24 Stunda segir Niels þetta vera gert vegna „skelfilegra húsnæðisþrengsla" og að kanna eigi hvort einkarekin þjónustu muni reynast „skilvirkari" og hvort unnt sé að fá hana á „hagkvæmari kjörum". Þeir sem komi til með að missa vinnuna fái hana eflaust hjá nýjum aðilum: „Ég geri ráð fyrir að þeir sem missa vinnu hjá okkur verði ráðnir annars staðar..."
Hverjir eru hinir nýju aðilar sem Níels Christian nefnir? Það vitum við ekki enn fyrir víst því pakkinn verður boðinn út, sbr. auglýsingu í Morgunblaðinu 16. desember sl. Útboðið verður ekki fyrr en að loknu sex mánaða tilraunatímabili. En á hvers hendi verður tilraunaverkefnið? Hinn 21. desember segir í frétt í 24 stundum: „Veritas Capital, eignarhaldsfélag umboðs- og lyfjadreifingarfyrirtækjanna Vistor, Distica og Artasan, skoðar möguleikana á að taka þátt í væntanlegu tilraunaverkefni Landspítalans um ritun sjúkraskráa utan spítalans."
Hér er um að ræða samsteypu sem selur Landspítalanum lyf og heilbrigðisyfirvöld eru í alvöru að hugleiða í „tilraunaskyni" að fela slíkum aðila umsjón sjúkraskráa! Talsmaður fyrirtækisins skynjar að mörgum muni finnast þetta gagnrýnivert og segir í fyrrnefndri frétt 24 Stunda að „...okkur myndi ekki detta í hug að vera með þetta í fyrirtæki sem er að selja Landspítalanum lyf ef af yrði, heldur í sérfyrirtæki." Og talsmaðurinn, Hreggviður Jónsson, einn eigenda Veritas Capital, bætir við að um þetta „hefur engin ákvörðun verið tekin."

Starfsfólkið og lífeyrisrétturinn

En hefur verið tekin endanleg ákvörðun um að hefja þessa einkarekstrarvegferð? Starfsmenn sperra við eyru þegar sagt er að leita eigi leiða til að draga úr kostnaði við störf þeirra því slíkar leiðir hafa oftar en ekki verið á kostnað lífeyrisréttinda og annarra réttinda sem starfsfólk nýtur. Þá verð ég að segja að tal um „skelfilegan húsnæðiskort" er harla undarlegt. Þannig eiga áhugasamir aðilar um „tilraunaverkefnið" að snúa sér til innkaupa- og verkstjórnunarsviðs LSH. Ekki er það til húsa á sjúkrahúsinu sjálfu heldur í skrifstofuhúsnæði í Ármúlanum í Reykjavík. Einhvers staðar verða hinir einkareknu læknaritarar að störfum og að sjálfsögðu verður það sjúkrahúsið sem greiðir þeim bæði laun og stendur jafnframt, beint eða óbeint, straum af húsnæðiskostnaðinum!

Skattgreiðendur borga brúsann

Það erum nefnilega við, skattgreiðendur, sem komum til með að borga brúsann þegar farið verður að framfylgja einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðiskerfinu. Þeir sem þar stýra för mega vita að til eru þeir sem vilja fylgjast með, hafa jafnvel það hlutverk að fylgjast með og veita aðhald.
Þess vegna beini ég nú eftirfarandi spurningum til verkstjórnenda í einkavæðingarferli heilbrigðisráðherra: 1) Er endanlega afráðið að leggja út í þetta tilraunaverkefni? 2) Í auglýsingu um þessa tilraun á útvistun sjúkraskráa segir „eftir 6 mánuði verður árangur metinn". Hvernig mun það mat fara fram, hverjir koma til með að annast það mat, og hver verður mælistikan? 3) Mér er kunnugt um að sums staðar, einkum á slysa- og bráðamóttöku hafa safnast upp ófrágengnar sjúkraskrár. Hvað veldur því, fjárskortur og/eða verkstjórnarvandi? 4) Eru verkstjórnendur á Landspítala ekki þeim vanda vaxnir að skipuleggja þessi verkefni á hagkvæman og skilvirkan hátt?
Ég spyr sem alþingismaður og skattgreiðandi sem furðar sig á að Landspítali skuli ætla að fá lyfjafyrirtækjum og fjárfestum sem vilja græða á þessari starfsemi hana í hendur og hlaupast þannig undan þeirri ábyrgð sem á að hvíla hjá þeim sjálfum.
Þá furða ég mig á því sem verkalýðssinni að leitað skuli lausna sem óvéfengjanlega kæmu til með að rýra mikilvæg réttindi launafólks. Og hvers vegna voru ekki teknar upp viðræður við samtök læknaritara eins og óskað var eftir?