EIGA EKKI GEIR OG ÁRNI AÐ AXLA ÁBYRGÐ?

Birtist í Morgunblaðinu 13.02.08.
MBL - LogoNú er mikið rætt um að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, "axli ábyrgð" vegna REI hneykslisins. Hneyksli hefur það réttilega verið kallað vegna kaupréttarsamninga í skjóli myrkurs, yfirgengilegrar ásælni peningamanna en fyrst og fremst vegna þess að blanda af ásetningi og sofandahætti stjórnvalda varð til þess að minnstu munaði að fjárfestar kæmu klóm sínum í eignir Orkuveitu Reykjavíkur. Leiðin fyrir fjárfesta inn í orkugeirann opnaðist þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde ákvað að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja síðastliðið vor. Þessari ráðagerð var mótmælt harðlega á sínum tíma og áður en gengið var frá kaupunum krafðist þingflokkur  VG þess að horfið yrði frá þessari fyrirætlun. Þá var Samfylkingin komin inn í ríkisstjórn í stað Framsóknar, en allt kom fyrir ekki. Hvorki Geir H. Haarde, forsætisráðherra né Árni M. Mathiesen, fjármálaráherra, léði þessu máls og Samfylkingin tók einsog fyrri daginn afstöðu með þögninni. 

Eftirfarandi voru skilyrðin sem þeir Geir og Árni settu við söluna á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja: "Íslensk orkufyrirtæki (félög sem stunda starfsemi sem fellur undir raforkulög nr. 65/2003) í opinberri eigu mega ekki bjóða í eignarhlut íslenska ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga."

Þarna kemur fram eindreginn ásetningur Sjálfstæðisflokksins að færa orkulindirnar í hendur einkaaðila. Það var svo ekki fyrr en í haust að forsætisráherrann byrjaði að bakka varðandi eignarhaldið á orkulindunum þegar hann svaraði mér því til á Alþingi hinn 9. október síðastliðinn, að þær ættu ekki "endilega að verða andlag einkavæðingar!"

Það breytir því ekki að í sumar leið gerði Geir H. Haarde og ríkisstjórn hans orkulindir á Suðurnesjum að "andlagi einkavæðingar" og hóf þar með ferli sem undið hefur upp á sig og birst okkur m.a. í REI-hneykslinu. Þarf ekki að spyrja upphafsmennina að hneykslinu hvernig þeir ætli að axla sína pólitísku ábyrgð? Telja þeir Geir H. Haarde og Árni Mathiesen sjálfum sér borgið með því að fórna Vilhjálmi Þ.?

Fréttabréf