Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR UNDIRBÝR EINKAVINAVÆÐINGU Á LANDSPÍTALA


Hvað er einkavinavæðing? Það er hugtak sem notað er þegar ráðist er í einkavæðingu í þágu vina sinna - pólitískra vina. Að þessu erum við nú að verða vitni á Landspítala háskólasjúkrahúsi.  Þar horfir heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, með velþóknun á handlangara sína „útvista" verkefnum. „Útvistun" er dulnefni  fyrir einkavæðingu.  Í gær var það ræstingarfólkið, í dag eru það læknaritarar. Forstöðumenn í stjórnsýslu LSH hafa purkunarlaust lýst því yfir að þetta sé gert til að ná niður launakostnaði.  Þetta kemur úr munni manna sem sjálfir eru vel haldnir í launum. En til mikils er að vinna því vinirnir í lyfjaiðnaðinum og í pólitíkinni bíða spenntir eftir að fá afhenta bitana til að græða á.  Formúlan er pottþétt: Skattgreiðandinn borgar. Síðan er bara spurningin um að komast í aðstöðu til að maka krókinn. Um það sér Sjálfstæðisflokkurinn. Það verður spennandi að skoða listann yfir þá sem vilja komast yfir nýjasta „útvistunarpakkann" frá LSH. Hve margir skyldu bera sjálfstæðisfálkann við brjóst sér? Eða appelsínugula merkið frá Samfylkingunni? Sá flokkur sem mælist stór nú um stundir reynist þegar á hólminn kemur vera agnarmár. Pínulítil sál sem leyfir  spillingunni að hafa sinn gang með þögn sinni. Sú þögn hlýtur að vera hávær í eyrum einhverra kjósenda þess flokks.
Á fimmtudag verður þetta málefni til umræðu í utandagskrárumræðu á Alþingi.