Fara í efni

SÚ SEM AXLAÐI PÓLITÍSKA ÁBYRGÐ

Svandís S og Ráðhusið
Svandís S og Ráðhusið

Nú er talsvert um það rætt að stjórnmálamenn axli ábyrgð. Þetta er einkum sagt í því samhengi að stjórnmálamönnum beri að segja af sér vegna óafsakanlegrar framgöngu. Það er einnig hægt að tala um pólitíska ábyrgð undir öðrum formerkjum, nefnilega að spyrja hvort stjórnmálamenn axli þá pólitísku ábyrgð að gæta jafnan almannahagsmuna, þeirra hagsmuna sem þeir eru kjörnir til að gæta. Í Reykjavík skall hurð nærri hælum síðastliðið haust þegar nokkrir fjármálamenn voru í þann veginn að læsa klóm sínum í Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta tókst að stöðva vegna þess að Svandís Svavarsdóttir oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs svaf ekki á verðinum. Hún axlaði sína ábyrgð með sóma og þeim afleiðingum sem allir þekkja. Það tókst að koma í veg fyrir að eignum almennings yrði stolið.  Því miður höfðu þá alltof margir sofið á verðinum. Þar á meðal fulltrúar Samfylkingarinnar.  Þeir steinsváfu. Það skýtur því skökku við, að einmitt úr þeim herbúðum sé nú vegið að Svandísi Svavarsdóttur, hún sé búin að taka af sér boxhanskana og hafi valdið vonbrigðum. Á þessa leið mæltist Katrínu Júlíusdóttur í samtali okkar í þættinum Í vikulokin á RÚV í morgun. Svipaðar yfirlýsingar hafa heyrst frá Samfylkingarfólki að undanförnu. Fyrst í stað taldi ég að mér hefði misheyrst en þegar þetta var endurtekið aftur og aftur áttaði ég mig á því að í herbúðum Samfylkingarinnar þykir nú mikið liggja við að hafa sigurinn af Svandísi. Því skulum við hins vegar aldrei gleyma að sigur Svandísar og félaga fólst í því að koma í veg fyrir stórfelldan þjófnað á almannaeigum. Sigurinn fólst líka í því að opna augu almennings fyrir því hvað gerist þegar farið er með almannaeigur á bak við lokuð tjöld og þar vélað um þær í samkrulli við fjármálamenn. Þessum mikilvæga sigri ber okkur öllum síðan að fylgja eftir með því að koma í veg fyrir að almenningur verði sviptur eigum sínum. Það er ljóst að sá slagur verður langur og strangur. Varnarbragðið verður augljóslega að reyna að láta umræðuna snúast einvörðungu um einstaklinga sem hafi „misstigið sig" og halda síðan áfram einsog ekkert hafi í skorist. Ætlar Samfylkingin að hafa það þannig? Ætlar hún að heimila áframhaldandi hlutafélagavæðingu og sölu almannaeigna? Ætlar hún kannski að loka bara augunum og blunda á meðan Sjálfstæðisflokkurinn fer sínu fram? Eða ætlar hún að axla ábyrgð eins og Svandís Svavarsdóttir gerði?