Fara í efni

UTANDAGSKRÁRUMRÆÐA Á ALÞINGI UM LÆKNARITARA


Þegar búið verður að rita inn utandagskrárumræðuna sem fram fór á Alþingi í dag um „útvistun" á störfum læknaritara mun ég setja inn slóðina HÉR. Umræðan var fróðleg um margt. Hún sýndi ákveðna pólitíska skiptingu á Alþingi. Annars vegar var Vinstrihreyfingin grænt framboð og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sem tóku afstöðu með læknariturum, með persónuverndinni og með skattborgaranum. Hins vegar var svo einkarekstrarliðið, Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra að sjálfsögðu, Ágúst Ólafur, varaformaður Samfylkingarinnar , sem er óskaplega upptekinn af því að einkavæðing sé í lagi ef skattgreiðandinn borgar brúsann! Svo voru Frjálslyndir sem höfðu skilning á útvistun eða þannig. Óþægilegast þotti mér að hlusta á mína góðu vinkonu, Ástu R. Jóhannesdóttur, tala niður til læknaritara. Vélritunarstörf mætti vista hvar sem væri, verkefnið væri tímabundið, og að við hlutaðeigandi aðila, (les læknaritara)  hefði verið rætt... allt rangar staðhæfingar og út í loftið. Finnst Samfylkingunni það kannski engu máli skipta þótt farið sé með fleipur?  Er samviskan föl fyrir að fá að vera í stjórnarmeirihluta?