EFNAHAGSÖNGÞVEITIÐ: AÐGERÐALAUS GEIR OG ISG Í AFGANISTAN


Gengi gjaldmiðilsins hrapar, verðbólgan æðir upp úr öllu valdi, áhyggjur almennings vaxa, forsvarsmenn fyrirtækja eru uggandi og hagfræðiprófessorar og talsmenn launafólks hafa uppi alvarleg varnaðarorð. Stjórnarandstaðan - Vinstrihreyfingin grænt framboð - setur fram tillögur til úrbóta.
En hvað gerir ríkisstjórn Íslands? Oddviti annars stjórnarflokksins , forsætisráðherrann, segir að ekkert sé við þessu ástandi að gera.  Geir H. Haarde, kom fram í fjölmiðlum í dag til að segja þjóðinni að halda sig með ríkisstjórninni á áhorfendabekkjunum og bíða átekta. Verum bara róleg, sagði Geir forsætisráðherra.  Oddviti hins stjórnarflokksins, utanríkisráðherrann, er ennþá fámálli, enda vart við öðru að búast því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er vant við látin í norðanverðu Afganistan að ræða málefni NATÓ. Hún má ekkert  vera að því að tala um einhver ómerkileg vandamál sem nú steðja að hennar eigin þjóð. Miklu mikilvægara að hlýða kalli varnamálaráðherra Bandaríkjanna um að stappa stálinu í NATÓ herinn í Afganistan.
Það er við þessar aðstæður sem bankastjóri Landsbankans kvaddi sér hlóðs. Fannst greinilega tilhlýðilegt að fylla tómarúmið og tjá sig fyrir hönd þeirra afla sem nú ráða Íslandi.  Og boðskapurinn?: Nýtt fix! Nú þurfum við að drífa í að reisa enn eitt álverið, nýtt álver í Helguvík, sagði Sigurjón Árnason bankastjóri í hádegisfréttum.  Og hann bætti því við að þetta væri frábært úrræði því af þessu hlytist hvorki þensla né verðbólga!!!
Misheyrði ég nokkuð? Ég held ekki. Hvað skyldi annars vera hægt að bjóða einni þjóð?

Fréttabréf