Fara í efni

Á LEIÐ Á FUND?


Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var ekki í góðu jafnvægi á Alþingi í gær þegar hann var beðinn um að útskýra flottræfilsháttinn í ferðamátanum sem ríkisstjórn hans væri farin að temja sér.  Ekki vildi ráðherrann upplýsa kostnað ferðalaganna með einkaflugvélum að undanförnu en sagði að í því væri fólginn tímasparnaður að ferðast með einkaflugvélum.  Svo hefði fjölmiðlafólk fengið ókeypis far! Þetta upplýsti forsætisráðherrann hróðugur á Alþingi í dag. Þingheimur fylgdist agndofa með þegar hann síðan sakaði þá sem gagnrýna einkaflugið  um dæmalausa lágkúru!
Samkrullið við fjölmiðlana sem forsætisráðherra stærði sig af á Alþingi er í sjálfu sér umhugsunarvert.  Þegar ríkisstjórn í einu landi er farin að efna til auglýsingaferða eins og þau Geir og Ingibjörg Sólrún hafa staðið fyrir að undanförnu með fjölmiðla upp á sína náð og miskunn þá er ástæða til að staldra við.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ætti að vara sig á hrokafullum viðbrögðum af því tagi sem hann sýndi í þinginu. Auðvitað gerir hvert mannsbarn sér ljóst að í því felst tímasparnaður - og í þeim skilningi hagræði  -  að stíga upp í einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í stað þess að ferðast með áætlunarflugi frá Keflavík þegar haldið er til útlanda. Þetta gildir hins vegar um okkur öll, ekki bara Stjórnarráðsliðið, sem virðist vera orðið svo veruleikafirrt að það er ekki lengur fært um að sjá sig sjálft í réttu ljósi. Ráðherrar í ríkisstjórn eru ekkert merkilegri en annað fólk.  Og þeirra tími er ekkert verðmætari en annarra. Kannski væri ráð að taka af þeim ráðherrabílana í nokkra mánuði og reyna þannig að ná þeim niður á jörðina - til okkar hinna, sem  erum sögð vera á svo dæmalaust lágu plani.