ÓSÝNILEGI MAÐURINN


Mogginn birti skemmtilega mynd í vikunni sem leið. Hún var af skuggamynd  af manni. Undir myndinni var upplýst af hverjum myndin var. Flestir held ég þó að hafi  getað ráðið gátuna um ósýnilega manninn af sjálfsdáðum. Ósýnilegi maðurinn var nefnilega enginn annar en forsætisráðherra landsins, Geir H. Haarde.

Í hádegisfréttum RÚV í dag var viðtal við formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Viðtalið gekk út á að sanna fyrir okkur hve mikið þjóðin hefði grætt á því að hafa ríkisstjórn sem gerði ekki neitt. Þannig hafi það til dæmis verið miklu betra að taka ekki lán fyrir þremur vikum til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Svo miklu munaði um hve lánin voru þá dýrari en nú. Svo var að skilja að helsta framlag ríkisstjórnarinnar væri aðgerðarleysið og ósýnileikinn. Þar höfum við það. Mogginn reyndist snjallari en við höfðum gert okkur grein fyrir. Myndbirtingin var táknræn fyrir stjórnarstefnuna.

Auðvitað má færa rök fyrir því að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar séu skaðlegri en aðgerðarleysi hennar. Tökum síðustu afrekin: Nýtt skrímsli sem mun ganga undir heitinu Varnarmálastofnun en ef mínar spár ganga eftir á þessi nýja hermálastofnun eftir að reynast frek til fjárins í skatthirslum þjóðarinnar þegar fram líða stundir - að ekki sé minnst á þá vafasömu hugmyndafræði sem hún er reist á. Annað glænýtt dæmi um áherslur ríkisstjórnarinnar er nýtt lagafrumvarp sem undanþiggur fyrirtæki að borga skatt af söluhagnaði hlutabréfa og í ofanálag er öll vinna sem tengist  öflun þessara óskattskyldu tekna líka frádráttarbær frá skatti!

Auðvitað væri hægt að halda upptalningu lengi áfram. Kannski er það rétt að best væri að þau Geir og Ingibjörg og félagar þeirra aðrir í ríkisstjórn framkvæmdu sem minnst og væru sem mest ósýnileg. 

Fréttabréf