HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNNI RÁÐIÐ HEILT?


Þeir félagar Guðlaugur þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, eiga sér draum. Sá draumur er að koma á markaðskerfi fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Þeir eiga stuðning hjá hægri sinnuðum mönnum í sínum flokkum. Því fengum við að kynnast þegar við heyrðum talað fyrir nýrri "Sjúkratryggingastofnun" Guðlaugs Þórs en þar á að versla með heilbrigðisþjónustu eftir að búið er að aðgreina á milli "kaupendahlutverks" ríkisins annars vegar og "seljendahlutverksins" hins vegar.

Þetta er sama hugsun og "Nýi Verkamannaflokkurinn" undir forystu Tonys Blairs hefur framfylgt í Bretlandi en sá flokkur er í stjórnartíð sinni kominn vel á veg með að koma breska heilbrigðiskerfinu út á markaðstorgið.

Tony Blair leitaði sér aðstoðar frá "fræðimönnum", pólitíkusum með háskólagráðu. Þar stóð framarlega í flokki Julian le Grand, prófessor við London School of Economics. Hann talaði ákaft fyrir valfrelsi í heilbrigðiskerfinu og ágæti markaðsmekanisma.
Julian þessi réttætir markaðsvæðinguna og gefur nýjum leiðtogum heilbrigðisþjónustunnar eftirfarandi í vegarnesti: "Til þess að markaðurinn skili árangri verða einstaklingar sem þar eru að verki fyrst og fremst að hugsa þröngt um eigin hag ... Þeir eiga að nýta sér öll hagnaðartækifæri án tillits til þeirra áhrifa sem það hefur á veitta þjónustu eða það fólk sem á að njóta hennar..." Ég gef mér að "fræðimaðurinn" trúi því að hin ósýnilega hönd Adams Smiths muni sjá um afganginn.

Svona er tilvitnun átrúnargoðs Guðlaugs Þórs og Ágústar Ólafs á frummmálinu:   "For markets to work effectively, individuals need to be primarily motivated by the furtherance of their own interests, narrowly defined... They should seize all profit generating opportunities regardless of the impact on the service provided or the people using that service..."

Fréttabréf