GUÐLAUGUR ÞÓR RANGFÆRIR

Birtist í Viðskiptablaðinu  10.07.08.
Föstudaginn 4. júlí birtist viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráherra, í Viðskiptablaðinu. Viðtal þetta er mikið að vöxtum enda víða komið við. Guðlaugur Þór segir blaðamanni frá áhuga sínum á því að koma á norrænum "heilsumarkaði" og auka "fjölbreytni í rekstrarformi" innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta kemur fram í svari við þeirri spurningu blaðamanns um hvernig GÞÞ ætli að "láta kné fylgja kviði" við að koma í framkvæmd æskuhugsjónum ráðherrans frá þeim tíma sem hann var í SUS og lofaði og prísaði einkavæðinguna.
Auðvitað þarf engum að koma á óvart að pólitískur ráðherra fylgi sinni pólitísku sannfæringu og stefnu. Það gagnrýni ég Guðlaug Þór ekki fyrir þótt ég gagnrýni þá stefnu sem hann fylgir.
Hitt vil ég gagnrýna hann fyrir sem stjórnmálamann hvernig hann rangfærir röksemdir andstæðinga sinna. Nokkur dæmi um þetta er að finna í fyrrnefndu viðtali.

1) Hann segir að þær raddir hafi nú "að mestu þagnað sem héldu að við værum að byggja upp tvöfalt kerfi..." Þetta er rangt. Þær raddir hafa ekki "að mestu þagnað". Þeim fer þvert á móti fjölgandi sem telja að einmitt þetta sé að gerast.

2) Heilbrigðisráðherrann segir að í umræðum á Alþingi hafi verið "ótrúlegt" að hlusta á tal um "sveltistefnu og niðurskurð". Segist hann "aldrei hafa orðið vitni að því að útgjöldin hafi verið skorin niður heldur eru þetta öfugmæli sem menn lepja upp hver eftir öðrum". Ég er í hópi þeirra sem gagnrýndi ráðherrann fyrir "sveltistefnu" í  umræðum á Alþingi. Þar studdist ég við skýrslu Ríkisendurskoðunar, svo og gögn frá sjúkrastofnunum, þar á meðal Landspítalanum. Í þessum  skýrslum og gögnum kom fram að miðað við umfang og verkefni hefur tvímælalaust verið skorið niður við þessar stofnanir, þeim hefur verið ætlað að sinna verkum sínum fyrir minna fjármagn. Á máli Ríkisendurskoðunar hét þetta  "framleiðniaukning". Hinu hefur aldrei verið haldið fram að í krónum talið hafi framlagið verið lækkað. Það hefur hins vegar lækkað að verðgildi vegna verðlagsþróunar og umfangs starfseminnar.

3) Varðandi ábendingar um hagsmunatengsl stjórnmálamanna við einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni segir GÞÞ: "Við sjáum ...hvernig reynt er að gera stjórnmálamenn sem komið hafa nálægt einkarekstri heilbrigðisþjónustunnar tortryggilega og látið að því liggja að þeir hafi annarlega hagsmuni . Þetta er ljótur leikur og það er augljóslega verið að reyna að endurtaka sömu ósannindin aftur og aftur í þeirri von að einhver trúi þeim á endanum." Það er rétt hjá GÞÞ að allavega undirritaður telur fulla ástæðu til að hagsmunatengsl séu opinberuð og að fólk átti sig á staðreyndum  - tengslum á milli þeirra sem annars vegar tala fyrir einkavæðingu heibrigðisþjónustunnar innan stjórnmálanna og eru jafnvel í aðstöðu til að taka ákvarðanir þar að lútandi og hins vegar fyrirtækja sem reyna að komast yfir hina einkavæddu þjónustu. Ég skora á blaðamenn Viðskiptablaðsins að grafast sjálfir fyrir um hvað er satt og hvað ósatt í þessum efnum.

4) Guðlaugur Þór segist hafa reynt að "leiðrétta" margvíslegan misskilning í umræðunni um heilbrigðiskerfið, sitthvað sem hann segir að við gagnrýnendur á stefnu hans "kjósum að líta framhjá". Hér nefnir hann sem dæmi að "80% af öldrunarþjónustunni sé í höndum einkaaðila". Við "kjósum" ekki að horfa framhjá þessu. Við höfum aldrei gagnrýnt sjálfseignarformið, svo sem Grund, Hrafnistu, Reykjalund og aðrar slíkar stofnanir. En við drögum skýra línu annars vegar á milli rekstrarforms sem tryggir að allar fjárveitingar renni inn í reksturinn og hins vegar einkavæddra stofnana sem eru reknar til að skapa eigendum sínum arð af "fjárfestingu sinni". Um þetta snýst ágreiningurinn, þ.e. hvort gera eigi heilbrigðiskerfið að atvinnutarfsemi sem skipulögð verði með þessum hætti - eins og hver annar atvinnurekstur á markaði. Kerfisbreytingar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þykja mér ganga í þá átt. Því miður.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður

Fréttabréf