Fara í efni

EFTIRLAUNALÖGIN OG AFSTAÐA EINSTAKRA ÞINGMANNA


Í fréttum er nú talsvert spurt um hvernig ríkisstjórnin ætli að höndla „eftirlaunalögin" svokölluðu, og þá hvort ekki standi til að leita eftir samráði við stjórnarandstöðuna. Ég á erfitt með að skilja hvers vegna fjölmiðlar staglast á þessu. Með þessu eru þeir  að gefa undir fótinn um að þarna sé yfirleitt eitthvað um að semja.
Í mínum huga er málið mjög skýrt. Fyrir þinginu liggur frumvarp frá Valgerði Bjarnadóttur um afnám eftirlaunalaganna. Í frumvarpi hennar er kveðið á um að lífeyriskjör ráðherra, þingmanna og ýmissa embættismanna verði samræmd  almennum lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins.
Málið er fullfrágengið.
Málið er tilbúið til afgreiðslu.
Málið er í höndum þingsins, ekki ríkisstjórnarinnar.  
Það eina sem þarf að gera er að greiða atkvæði um þingmál sem liggur fyrir þinginu. Ef menn eru ósáttir við þingmálið koma viðkomandi  væntanlega fram með breytingartillögur. Fróðlegt verður að fylgjast með atkvæðagreiðslu um þær.  Þar mun afstaða einstakra þingmanna koma skýrt fram.  Eins og jafnan gerist þegar óskað er eftir nafnakalli.