Fara í efni

UM HARÐSTJÓRN HUGMYNDAFRÆÐINNAR


Á Íslandi vofir yfir kreppa. Kreppa sem vonandi er hægt að afstýra. Ástæðan fyrir þessari kreppu er gegndarlaust  fjárfestingarbrask manna sem fengið hafa eignir þjóðarinnar á silfurfati; manna sem hafa skuldsett íslenska þjóðarbúið meira en dæmi eru um í sögunni; manna sem sýnt hafa fullkomið ábyrgðarleysi alltaf þegar ábyrgðar var þörf. Nú síðast þegar hinir skuldsettu bankar högnuðust um milljarða á gengislækkun íslensku krónunnar tóku sjálftökumennirnir í stjórn þessara einkavæddu fjármálastofnana mörg hundruð milljónir í eigin vasa!  Bara si svona. Hvaða stjórnmálaskoðanir skyldu þessir menn aðhyllast, félagslega vinstri pólitík eða hægri frjálshyggju?
Og fólkið sem hneykslaðist hvað mest á skrifum á þessari síðu á sínum tíma um hvort við kynnum að vera betur komin með hugsunarhátt af þessu tagi utan landsteinanna en innan, segir nú vera fullkomlega skiljanlegt að auðkýfingarnir hugsi sér til hreyfings ef almenningur er ekki reiðubúinn að opna sjóði sína þeim til styrktar og lúti þeim í auðmýkt í stóru og smáu.

Sá stjórnmálaflokkur sem stýrt hefur Íslandi inn á þessar glæfralegu brautir heitir Sjálfstæðisflokkur. Óumdeilanlegt er að hann stendur til hægri í stjórnmálum.  Þetta er flokkurinn sem gaf bankana, greiddi götu þotuliðsins og hlóð undir gullrassana. Þetta er líka flokkurinn sem lækkað hefur álögur á stóreignamenn og hlaðið gjöldum á sjúkt fólk og fátækt. Næst á dagskrá hjá flokknum er að eyðileggja Íbúðalánasjóð og einkavæða heilbrigðiskerfið. Ábyrgðarfullt?  Hvað skyldi Þorsteini Pálssyni,  ritstjóra Fréttablaðsins  finnast um það?
Hann skrifar leiðara blað sitt í dag um stjórnmálaflokka sem sýni ábyrgð og hina sem geri það síður. Í leiðaranum gefur þessi fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins VG  svolítinn plús fyrir það sem hann kallar ábyrgan málflutning  um ríkisfjármál. Þetta sé til marks um, segir Þorsteinn, að ..."vinstriflokkar þurfa ekki sjálfkrafa að vera óábyrgari  í ríkisfjármálum en flokkar hægra megin við þá."

Þótt gott geti verið að fá hrós hef ég engu að síður sitthvað við þessa framsetningu að athuga.

  • 1) Í fyrsta lagi sakna ég tiltekinna forsendna í samanburðarfræðum ritstjórans á ábyrgð og ábyrgðarleysi í pólitík. Þar hefði hann mátt staðnæmast við ábyrgð, sem flokkar sýna tekjulágu fólki ,sem á allt sitt undir fjárveitingarvaldi ríkisins. Þar hafa vinstri menn almennt sýnt meiri ábyrgð en þeir sem standa til hægri.
  • 2) Í öðru lagi hafa vinstri menn (les: VG) fylgt ábyrgari skattastefnu en hægri menn, varað við því að dregið sé úr skattstiginu í þenslu því ört streymi í ríkissjóð við slíkar aðstæður sé ekki varanlegt.
  • 3) Í þriðja lagi hafa íslenskir vinstrimenn varað við stóriðjustefnunni á efnahagslegum forsendum og sagt að hún myndi setja efnahagskerfið á rönd. Þau varnaðarorð reyndust skynsöm og ábyrg því þau gengu eftir. Engu að síður er talað um ábyrgðarleysi vinstri manna einmitt hvað áhrærir stóriðjufjárfestingar.

Hvernig stendur þá á því að jafn góður greinandi, eins og þorsteinn Pálsson óumdeilanlega er, skrifar á þann veg að vinstri flokkar séu almennt óábyrgari en hægri flokkar, þegar dæmin um hið gagnstæða úr okkar samtíð bókstaflega hrópa á okkur?

 Sem áður segir er ÞP ekki maður án fortíðar. Hann er sjálfstæðismaður í húð og hár og gerandi í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum og áratugum. Engu líkara er en menn sptottnir upp úr pólitískum jarðvegi Sjálfstæðisflokksins sitji í einangrunarfangelsi hugmyndafræði og fordóma, sem hægt og bítandi virðist vera að ganga af flokki þeirra dauðum.  Að búa í veruleika þar sem óhugsandi er að annarra flokka menn geti hugsað af meiri skynsemi en þeir sjálfir, þar sem óskeikulleiki hugmyndafræðinnar er nánast alger, eru skelfileg örlög hverjum hugsandi manni. Að búa við harðstjórn hugmyndafræði sem nær yfir allan mannlegan veruleika og er án undantekninga, er aðeins á færi manna með óslökkvandi og stöðuga trúarþörf.  
Að öðru leyti hljótum við að þakka hrósið Þorsteinn.