Fara í efni

ÚRRÆÐI - ÚRRÆÐALEYSI


Sláandi var munurinn á stjórn og stjórnarandstöðu í umræðum á Alþingi í gær um stefnuræðu forsætsiráðherra. Geir H. Haarde kynnti ekki stefnu ríkisstjórnar sinnar. Hann kynnti stefnuleysi hennar. Þeir sem áttu von á að heyra um aðgerðaáætlun stjórnarmeirihlutans urðu fyrir vonbrigðum. Stefnuræðan var slétt og felld en ekki meir.
Jóhanna Sigurðardóttir var fyrsti ræðumaður Samfylkingarinnar. Við, sem áttum von á því að hún ýtti á afgerandi hátt út af borðinu hugmyndum um að takmarka umsvif Íbúðalánasjóðs, urðum fyrir vonbrigðum. Því viti menn - að vísu velinnpakkað - glitti í frumvarp um nákvæmlega þetta efni. Er þessu fólki ekki sjálfrátt!!!?
Einu get ég lofað: Sérhverri aðför að Íbúðalánasjóði verður mætt af mikilli hörku og leitað eftir víðtækri sastöðu í þjóðfélaginu gegn slíkum áformum. Nú er einfaldlega komið nóg af erindrekstri fyrir fjármála- og gróðaöfl í Stjórnarráði Íslands.
Hjá stjórnarandstöðunni kvað við allt annan tón. Hvatt var til samstöðu og samvinnu, að menn snéru bökum saman gegn þeirra vá sem steðjar að okkur. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, vísaði í varnaðarorð VG og tillögur sem fram hafa verið settar af hálfu þingflokksins á undanförnum árum og nú í upphafi þings. Hér er um að ræða alvöru aðgerðir til að taka á alvöruvanda. Á strengi þjóðarsamstöðu slógu einnig formenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna, þeir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
Það yljaði mér um hjartarætur að heyra hve ríkur vilji er með mönnum að slá skjaldborg um land og þjóð á erfiðleikatímum. Þannig hafa Íslendingar sigrast á erfiðleikum fyrr á tíð, með samstöðu og samtakamætti. Frjálshyggjan stríðir gegn þessari hugsun, hún sundrar í stað þess að sameina. Óneitanlega er það dapurlegt að verða vitni að þrátt fyrir allt það sem nú gengur á er ríkisstjórnin enn við sama heygarðshornið hvað varðar fylgispekt við peningafrjálshyggjuna. Þetta endurspeglaði ræða Geirs H. Haarde, forsætisráðherra við umræðuna á Alþingi í gær. Það er því ekki bara úrræðaleysi sem hrjáir ríkisstjórnina heldur líka pólitísk villuljós.