SESTIR UNDIR STÝRI Á BLÚSSANDI FERÐ TIL FORTÍÐAR


Í gær mættu í Alþingi fulltrúar frá Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE. Þeir komu færandi hendi með nýútkomna bók, Hagfræði í hnotskurn, eftir Henry nokkurn Hazlit. Þessi bók er hvatningarrit fyrir frjálshyggju, sem þessi hægri sinnaða rannsóknarmiðstöð, sér ástæðu til að gefa út núna og færa alþingismönnum að gjöf (sjá nánar um RSE

http://www.ogmundur.is/annad/nr/2440/ ).Lexían ekki nægilega vel numin

Í formála segir að Hazlit hafi fagnað mjög innreið nýfrjálshyggjunnar á níunda og tíunda áratugnum. Í ofanálag hafi kommúnisminn hrunið um þetta leyti. Þrátt fyrir það hafi Hazlit þó talið "að lexían hefði ekki verið nægilega vel numin né heldur af nægilega mörgum."   Þessu eru þeir RSE menn heldur betur sammála enda eigi frjálshyggjuboðskapur Hazlits  "fullt erindi til okkar Íslendinga..."
Það er nefnilega það. Ég veit ekki betur en að við höfum bragðað ótæpilega á þeirri mixtúru á undanförnum árum með kunnum afleiðingum.

Í hvers umboði talar bankastjórinn?

En þeir voru fleiri sem kvöddu sér hljóðs í gær úr þessari átt. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþingsbanka skrifaði grein í Fréttablaðið. Hann er hjartanlega á sama máli og frjálshyggjufélagar hans hjá RSE. Fyrirsögnin á grein Finns er: Horft fram á veginn. Við nánari skoðun kemur í ljós að Finnur heldur sig við fortíðarlausnir, rétt eins og frjálshyggjufélagar hans hjá RSE. Kannski er ósanngjarnt að ætlast til að menn umpólist á einni nóttu. Það er nefnilega eins og mig rámi í að þessi sami Finnur Sveinbjörnsson hafi verið á meðal gerenda og klappenda í útrásinni sálugu. Hann má hafa allar sínar skoðanir fyrir mér - að sjálfsögðu. En er það í þessa átt sem á að halda með hina nýju banka þjóðarinnar?

Rannsókn á spillingu og mistökum megi ekki trufla

Í spjalli sínu um "framtíðina" segir Finnur okkur að mörgum spurningum sé vissulega ósvarað "hvers vegna svona er komið fyrir þjóðinni." Hann vill að við lærum af fortíðinni en rannsókn á hinu liðna má ekki trufla "það uppbyggingarstarf sem nú er hafið í nýjum bönkum...(má) ekki verða okkur fótakefli sem hindrar nýja sókn."
Og síðan kemur formúlan fyrir sókninni: "Að ýmsu leyti er hagkerfið í hliðstæðri stöðu og á hægvaxtarskeiðinu 1988-1994. Þá eins og nú skiptir höfuðmáli að styrkja innviði hagkerfisins og horfa fram á veginn. Hlutabréfamarkaðurinn gegndi mikilvægu hlutverki í bæði hagræðingu og nýsköpun á Íslandi þegar við brutum okkur leið til bættra lífskjara. Fyrst með því að greiða fyrir hagræðingu í sjávarútvegi. Síðan með því að sjá sprotafyrirtækjum fyrir fjármagni. Loks með því að greiða fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Allt eru þetta þættir sem búast má við að þörf verði fyrir á næstu árum, ef vel á að fara... Því höfum við í Nýja Kaupþingi ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þjónustu sem tengist verðbréfamarkaðnum, einkum fyrirtækjaráðgjöf, markaðsviðskipti og eignastýringu."

Hér er okkur m.ö.o. sagt
a) að kvótakerfið í sjávarútvegi hafi verið þjóðinni til góðs
b) að markaðsvæðingin hafi brotið okkur leið til bættra lífskjara
c) að Nýr Kaupþingsbanki ætli að stuðla að frekari einkavæðingu ríkisfyrirtækja

Nóg komið?

Er ekki komið nóg af ráðleggingum úr mistakasmiðju Hannesar Hólmsteins?
Ekki þykir stjórnarþingmönnum á Alþingi svo vera.
Ekki þykir Rannsóknarstofnun um samfélags- og efnahagsmál svo vera.
Margt bendir hins vegar til þess að þjóðinni þyki nóg komið.
Frá henni gerist sífellt háværari krafan um kosningar. Strax.

Fréttabréf