Fara í efni

„VONANDI BETRA ÍSLAND"

Nýr formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Gunnlaugsson, hlýtur almennt lof fyrir framgöngu sína í þjóðmálaumræðunni. Hann ber með sér inn í pólitíkina ferskleika - nýjan andblæ.
Sigmundur hefur talsvert látið að sér kveða á undanförnum misserum einkum í skipulagsmálum en athygli hefur vakið frumleg nálgun hans til þeirra mála. Ekki þekki ég stjórnmálaskoðanir Sigmundar gerla en þó þykist ég finna að ekki fari þær saman með þeim viðhorfum sem voru ríkjandi á þeim tíma sem Framsókn var í sambúð með Sjálfstæðisflokknum frá miðjum tíunda áratugnum og fram til 2007.
Allt þetta á eftir að koma í ljós. Hitt er þegar ljóst, að tilboð, og þá ekki síður röksemdafærsla, hins nýja formanns Framsóknarflokksins fyrir því að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar falli, er í góðum anda, nokkuð sem Staksteinar Morgunblaðsins tóku eftir og vöktu máls á.  Þegar Sigmundur Gunnlaugsson var spurður hvað Framsóknarflokkurinn fengi út úr því að veita nýrri minnihlutastjórn stuðning svaraði hann að bragði: „Vonandi betra Ísland".
Þetta er gott svar. Megi stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem starfa í þessum anda vegna vel.