Fara í efni

FLESTIR VG-KJÓSENDUR Í KRAGA!


Ofarlega í huga eru þakkir til allra þeirra sem lögðu Vinstrihreyfingunni grænu framboði lið í kosningabaráttunni, bæði við undirbúning þeirra og í kjörklefanum. Niðurstaðan var glæsileg þótt því sé ekki að leyna að flestir hafi búist við enn betri árangri. VG jók fylgi sitt um 7,4 prósentustig, meira en nokkur annar flokkur. Hlutfallsleg fylgisaukning VG var meiri en nokkurs annars stjórnmálaflokks og nam hærra hlutfalli en fylgi Borgarahreyfingarinnar sem skilaði 4 inn á þing. Framsókn og Samfylking fjölguðu þingmönnum um 2 en VG um 5!
Í Suðvesturkjördæmi, svokölluðum Kraga, fékk VG 17,4% atkvæða og tvo þingmenn kjörna. Fyrir þremur árum var enginn þingmaður VG í kjördæminu. Í kosningunum 2007 fengum við fyrsta þingmanninn og eftir þessar kosningar eru þeir orðnir tveir. Bærilegur árangur í kjördæmi sem er hefðbundið vígi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Greinilegt er að VG er að treysta stöðu sína í kjördæminu svo um munar.
Kraginn er langfjölmennasta kjördæmi landsins. Þannig skýrist að þótt hlutfallslega sé fylgi VG meira í flestum öðrum kjördæmum þá eru hvergi fleiri kjósendur VG en í Kraga. Umhugsunarvert? Það þykir mér.