Fara í efni

MÁLSVARAR OG MÁLSTAÐUR


Í gær mættu oddvitar framboðslistanna í mínu kjördæmi - Kraganum - í sjónvarpssal til að sitja fyrir svörum fréttamanna og fundarmanna úr sal. Stjórnendum er vandi á höndum því listarnir eru margir og hætt við að þáttur af þessu tagi gerist langdreginn. En stjórnendum fórst verkið vel úr hendi þótt stundum þætti mér þeir nokkuð yfirgangssamir.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, átti óneitanlega mjög í vök að verjast í þættinum enda málstaður hans skelfilegur. Hann sagðist ætla að skila til baka greiðslum sem flokkurinn fékk frá FL-group og Landsbanka. Samkvæmt Morgunblaðinu í dag er að skilja að Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrum stjórnarfomaður Orkuveitu Reykjavíkur hafi haft milligöngu um "gjöf" FL-group sem gerðist rausnarleg á sama tíma og þessi fjárfestingarklíka var að reyna að sölsa undir sig jarðvarmann á Reykjanesi og Hellisheiði með dyggri aðstoð hluta Sjálfstæðisflokksins.
Í þættinum baðst Bjarni, formaður flokksins afsökunar og kvaðst ætla að skila fénu til baka. En þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki að biðjast afsökunar á fleiru? Þetta er flokkurinn sem (ásamt hjálparkokkum úr öðrum ónefndum flokkum) er valdur þess að við erum stödd þar sem við nú erum. Bjarni Benediktsson átti í vandræðum í þættinum vegna þess málstaðar sem hann er í forsvari fyrir og vegna foraðsins sem nú er að koma betur og betur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er á bólakafi í. En hafi Bjarni átt erfitt í þessum þætti þá verður ekki sama sagt um Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, oddvita Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í kjördæminu. Hún nýtur þess vissulega að vera óvenju skýr og skilmerkileg í málflutningi, segir hlutina þannig að allir skilja. En hún er einnig málsvari sjónarmiða og stefnu sem fólk finnur að er sanngjörn, heilsteypt og heiðarleg.
Margt gott kom fram í máli annarra þátttakenda í þættinum - ekki síður nýju framboðanna - en að öllum ólöstuðum þótti mér Guðfríður Lilja bera af.