Fara í efni

NÝJA ÍSLAND: ÞINGS OG ÞJÓÐAR AÐ ÁKVEÐA - FRAMKVÆMDAVALDS AÐ FRAMKVÆMA

Það er góður siður að vera nákvæmur í orðavali. Það á við um mig sem aðra. Ekki síst þegar stjórnarmyndunarviðræður eru á dagskrá. Margir hrukku í kút þegar svo virtist sem stæði stál í stál í yfirlýsingum talsmanna VG og Samfylkingar í Evrópumálum.

Ekkert á óvart

Í rauninni var ekkert þar sem átti að koma á óvart; hvorki þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og fomaður Samfylkingarinnar sagði að sér fyndist eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga vera að komast inn fyrir dyr hjá Evrópusambandinu, né hjá mér þegar ég sagði að það væri það alvitlausasta sem ég gæti hugsað mér. Ónákvæmni gætti hjá mér í einu viðtali þegar skilja mátti að ég legði að jöfnu aðild að Evrópusambandi og viðræðuferli. Það leiðréttist hérmeð.
En hvernig leysa samstarfsflokkar í ríkisstjórn djúpstæðan ágreining af þessu tagi? Það gera þeir með aðferðum Nýja Íslands: Lýðræðinu. Þjóðin ákveði.

Tæknileg úrlausnarefni

Sú skylda hvílir á ríkisstjórn og Alþingi að opna lýðræðinu leið; að gera þjóðinni kleift að taka afstöðu í beinni atkvæðagreiðslu. Spurningin snýst um það hvar í umræðu-/ákvörðunarferli þjóðin láti til sín taka. Á hún til dæmis að greiða um það atkvæði hvort rétt sé að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið - eða á að láta reyna á viðræður samkvæmt forskrift Alþingis og bera afurðina undir þjóðina. Í mínum huga er þetta tæknilegt úrlausnarefni.

Frjáls en (sjálfs)öguð

Nýja Ísland stjórnast ekki af boðvaldi að ofan heldur byggir það á gagnrýnni hugsun og margbreytileika skoðana. Til að slíkt gangi upp þarf tvennt: Umburðarlyndi og sjálfsaga. Þegar dregur úr boðvaldi að ofan reynir meira á okkur sjálf - hvert og eitt - að margbreytilegur hópur, sem telur samstarf sín í milli brýnt, komi sér saman um að útkljá ágreiningsefni og tæknilegar útfærslur með aðferðum lýðræðisins; með öðrum orðum, komi sér saman um hvernig eigi að fara að því að vera ósammála. Aldrei á að gera kröfu um að nokkur maður þurfi að hvika frá sínum prinsíppum, grundvallarmálunum. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar við smíðum umgjörð stjórnmálanna.

Einsog að drekka vatn

Hvað varðar málefni dagsins, Evrópumálin þá er staðan skýr. VG og S hafa ólíka sýn á hvernig hagsmunum Íslands er best borgið. Hvað varðar virðingu fyrir lýðræðinu verðum við að sýna kjósendum að báðum flokkum er alvara.   
Mergurinn málsins er þessi: Þjóðin - í sumum tilvikum fulltrúar hennar á Alþingi -taka ákvörðun með aðferðum lýðræðisins, síðan framkvæmir framkvæmdavaldið. Allt samkvæmt orðanna hljóðan. Einfalt mál og auðvelt. Einsog að drekka vatn. Það er mín skoðun. Hún kom meðal annars fram í þessu viðtali á mbl.is: http://mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/04/27/thjodin_verdur_ad_rada/