Fara í efni

OKKUR AÐ KENNA?


Sérstakt að fylgjast með fjölmiðlaumræðu þessa dagana, fréttum, fréttaskýringum og bloggi. Icesave ber hátt. Minna fer fyrir umræðu um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, umdeilanlegan Stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðar, skuldsetningu ríkissjóðs vegna gjaldeyrisforða og endurreisnar bankanna.
Mín skoðun er sú að allt þetta hefði þurft þá gagnrýnu umræðu sem nú er að rísa vegna Icesave. En betra er seint en aldrei. Efnum til hennar.

En hvað skyldi einkenna þessa umræðu hjá sumum fjölmiðlanna og frjálshyggjuvængsins á blogginu?
Um sumt er Morgunblaðið dæmigert. Sannast sagna þótti mér sem ég væri kominn aftur á kaldastríðstímann þegar ég las skrif fréttaskýranda á Morgunblaðinu, Agnesar Bragadóttur um Svavar Gestsson, Steingrím J. Sigfússon og sjálfan mig um síðustu helgi.

En hver skyldi  okkar glæpur vera? Fyrir flesta liggur það ekki í augum uppi - þess vegna koma dylgjur og rógur.
Við eigum það sammerkt að koma beint og óbeint að hreinsunarstarfi eftir frjálshyggjuvaldatímann þar sem þjóðfélagið hefur í bókstaflegri merkingu verið sett á hliðina, þjóðin komin í heljargreipar alþjóðaauðvaldsins, okkur sem þjóð stillt upp við vegg, vinalausum við samningaborð um smá efni og stór. Nei, Agnes og hægra bloggið er búið að finna það út að allt sem "den samlede front", Evrópusambandsríkin fyrir tilstilli Breta og Hollendinga undir verkstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur tekist að þröngva okkur til, er Svavari Gestssyni og okkur samstarfsmönnum hans að kenna! Mannorð hans sem samningamanns fyrir okkar hönd, megi nú meiða eins og hvern mann lystir! Svo og mannorð Steingríms J. Sigfússonar og allra þeirra sem eiga það sameiginlegt að BERA ENGA ÁBYRGÐ Á ÞVÍ HVERNIG KOMIÐ ER FYRIR ÍSLANDI en reyna nú að leita lausna út úr vandanum. Ræðum þær lausnir sem bornar eru á borð, verum þeim sammála eða ósammála eftir atvikum, samþykkjum þær eða höfnum! Þannig á það að vera í lifandi lýðræði - og á því þurfum við að halda meira en nokkru sinni - gagnrýnu og frjálsu!

En hlífum mannorði þeirra sem eru að vinna verk sín eftir bestu samvisku og við þær hrikalegu aðstæður sem skoðanasystkin Agnesar Bragadóttur skópu okkur.
Getur verið að einhver eigi að skammast sín?
Ég hallast að því.