Fara í efni

SAMSTAÐA ER EKKI SAMA OG UNDIRGEFNI


Sérstakt að lesa Fréttablaðið þessa dagana. Á miðvikudag var blaðið ekki prentað í stóru letri en þó blasti við að það endurspeglaði það sem ég hef fundið fyrir síðustu daga, ótta og áróður. Félagslega sinnað fólk hefur áhyggjur af vinstri stjórn. Miklu meira en það. Vill ekki að andað sé á hana. Ef óþægilegt gæti verið að ræða um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá á helst að sleppa því! Ef óþægilegt er að ræða um Icesave, þá sleppum við því.
Einn maður sem hringdi í mig - góður maður, sannur vinstri sinni og samherji - varaði mig við og spurði í hneykslan: Ertu að sprengja stjórnina? Veistu að þá verður óhamingja og jafnvel uppreisn, fólk verður borið út úr ráðuneytum einnig verkalýðskontórum, blóð gæti runnið, gerirðu þér grein fyrir því?

Mun blóð renna?

Ég sagði að litlar líkur væru á því að blóð rynni, einfaldlega vegna þess að flestir kontórar væru blóðlausir. Þar á bæjum væru menn því miður frosnir og ekki að sjá að renni blóð í nokkrum manni. Það væri vandinn. Hvers vegna vera svona óttasleginn spurði ég á móti, hvers vegna ganga með gólflistanum? Hefðum við unnið landhelgisstríðin á hnjánum?
Aftur að Fréttablaðinu. Þar voru í gær þrjár greinar, sem eru mér til umhugsunar.
Kolbeinn Óttarsson Proppé þótti mér kominn nærri hnéskelinni. Hann sagði á baksíðu að nú reyndi á ráðamenn , „hverja menn þeir geymdu andspænis vandanum". Samhengið?: Heilbrigðisráðherra hlaupinn frá borði. Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og fréttamaður ræddi „háskalegan hégómleika". Hver skyldi vera erindreki smásálarinnar? Þó ekki brotthlaupinn heilbrigðisráðherra? Ekki var betur séð.

Sverrir og leiksoppurinn

Síðan er það Sverrir Jakobsson, sem segir að ég hafi „glapist" og sé leiksoppur í „þjóðrembismálflutningi"..."popúlisma" Framsóknarflokksins. Hver skyldi nú vera þessi meinti þjóðrembisglæpur og popúlismi, sem hinn nytsami sakleysingi, leiksoppurinn ég, hafi glapist af? Ég las og reyndi að skilja en fékk engan botn í vangaveltur framangreinds manns.
Hitt er ljóst: að margir líta á stjórnmálaflokka eins og kirkjudeildir. Kirkjan skiptir þá öllu máli, verkin minna máli. Og nú kemur fram skelfingin yfir því að núverandi stjórn, „Rétttrúnaðarkirkjan" fari frá.
Svo vill til að ég er ekki alveg svona lítillátur. Ég ætla mér þann munað að reisa mig ögn við dogg. Segja að ég þykist vita nákvæmlega hvað ég er að gera og frábiðja allt yfirlætistal um að glepjast í þessa áttina eða hina.
Staðreyndin er sú að forsvarsmenn Framsóknarflokksins hafa af einurð varað við Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gegn yfirgangi Evrópusambandsins, sem gengur erinda lánadrottna okkar í Bretlandi og Hollandi - og þeir hafa talað fyrir því að við sæktum um lán frá Norðmönnum sem Miðflokkurinn þar í landi segir að gæti staðið okkur til boða ef við færum formlega fram á það. Öllu þessu er ég sammála og fyrir sumu hef ég talað lengi.
Popúlsimi er hugtak sem notað er til að niðurlægja fólk. Það skírskotar til þess sem til vinsælda er fallið á vafasömum forsendum. Það er illa til fundið að klína þessu á stjórnmálamenn sem vilja vel.

Lífið er lengra en ein ríkisstjórn

Það sem forsvarsmenn Framsóknarflokksins eru að gera þykir mér jákvætt. Almennt standa Íslendingar með þeim í þessari baráttu. Við eigum ekki að láta það trufla okkur þótt hagsmunagæslumenn stjórnarmynsturs augnabliksins fari á taugum. Lífið er nefnilega lengra en ein ríkisstjórn. Það breytir því þó ekki að ég er ekki talsmaður þess að slíta núverandi stjórn. En vilji minn til að halda í henni lífinu byggir ekki á ótta. Hann er undir því kominn að hún sýni fram á að hún sé traustsins verð. Þar á hún verk að vinna. Ríkisstjórnin mun ekki öðlast líf með þögulli eindrægni. Samstaða er góð. Undirgefni er annað. Um hana - undirgefnina -  var beðið. Hana gat ég ekki gefið. Þess vegna fór ég.

Hver sprengir?

Eins og fram hefur komið er það ásetningur minn að reyna eftir megni að stuðla að því að ríkisstjórnin haldi. Af þeim sökum sá ég mig knúinn til að segja af mér. Ríkisstjórnin varð samkvæmt formönnum stjórnarflokkanna að tala einni röddu í Icesave málinu, einnig því er varðaði vinnubrögð. Þetta þótti mér óásættanlegt í ljósi þess að öll aðkoma að þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar var í hæsta máta ámælisverð. Með brottgöngu minni lagði ég hins vegar mitt af mörkum til að halda ríkisstjórninni saman. Það breytir því ekki að málið er ekki til lykta leitt. Þar þurfa fleiri en ég að horfa í eigin barm. Ábyrgðin er ekki bara mín megin.