Fara í efni

VERÐ EKKI VIÐSKILA VIÐ MÍNA SAMVISKU


Fréttablaðið 1.10.09
Fréttabladid hausÖgmundur Jónasson segir ríkisstjórnina hafa stillt sér upp við vegg varðandi Icesave. Hann segir brotthvarf sitt bjarga ríkisstjórninni fremur en hitt og hann stígi sorgmæddur til hliðar. Skortur á lýðræðislegum vinnubrögðum hafi einkennt Icesave og það sé grundvallarmál. Hann vildi nýja samninganefnd um Icesave.

Af hverju sagðirðu af þér?

"Ég hef alltaf sagt að Icesave sé eitt og framtíð ríkisstjórnarinnar, og þau verkefni sem hún hefur sett á oddinn um verndun velferðarkerfisins, sé annað. Sá skilningur hefur hins vegar ekki átt upp á pallborðið í stjórnarráðinu; þar vilja menn læsa þetta tvennt saman og gera óaðskiljanlegt. Þegar það fékkst síðan staðfest á útsíðum Fréttablaðsins í dag [gær] að líf ríkisstjórnarinnar væri undir því komið að við sem sætum í ríkisstjórn töluðum einni röddu í Icesave-málinu, ákvað ég að víkja fremur en tefla þessu lífi stjórnarinnar í tvísýnu.

Þar kom staðfesting á því sem áður hafði fengist staðfest innan veggja stjórnarráðsins. Á ríkisstjórnarfundi var það gert alveg ljóst að þetta tvennt væri tvinnað saman og áhersla lögð á að ef fram kæmi stjórnarfrumvarp um Icesave væru allir ráðherrar sammála því.

Að ef þú styddir ekki það frumvarp væri ríkisstjórnin sprungin?

"Já. Forsætisráðherra gaf þau skilaboð að þá yrði tekið til skoðunar hver framtíð stjórnarinnar yrði og farið með inn í þingflokka."

Ekki ákveðinn

"Nú tek ég það fram að ég hef ekki gefið mér neitt um hver mín afstaða verður í þessu Icesave-máli. Ég vil að það fái þinglega meðferð og þingið komi óbundið að því. Í mínum huga er þetta ekkert smámál; þetta er grundvallaratriði í þessu stóra máli, sem er miklu stærra en ríkisstjórnin og nokkur stjórnmálaflokkur innan veggja þingsins.

Þingið verður að eiga aðkomu að málinu, hver svo sem endanleg niðurstaða verður við atkvæðagreiðslu."

Styður þú Icesave?

"Ég er opinn fyrir því að gera það besta í málinu sem völ er á. En ég tel að stjórnarandstaðan og allt Alþingi eigi að eiga aðkomu að málinu með óbundnar hendur. Það gildir líka um stjórnarliðið. Þetta er grundvallarprinsipp í mínum huga.

Bjargar stjórninni

En óttastu ekki að stjórnin geti sprungið við brotthvarf þitt?

"Af hverju ætti hún að gera það? Er þetta ekki fremur til að bjarga henni? Ef hún telur sig vera komna fram á eitthvert hengiflug vegna svona vinnubragða og ef henni er forðað af hengifluginu af þeim sem er meintur leiðsögumaður í þá átt, þá hlýtur að það vera til þess að bjarga stjórninni fremur en hitt.

Ég tel mjög mikilvægt að stjórnin sitji áfram og rísi undir því ætlunarverki sínu sem birtist í stjórnarsáttmálanum; að standa vörð um velferðarkerfið og efla það í hvívetna. Það er minn einlægur ásetningur að leggja allt sem ég á á vogarskálarnar til að það takist.

Ég tel að stjórnin sé að gera allt sem í hennar valdi stendur í þágu velferðarkerfisins og jafnaðarsamfélags. Við þurfum að vanda okkur vel í öllu sem snýr að lýðræði og gagnsæi. Við þurfum að beita okkur af enn meiri krafti en áður til að uppræta spillingu, sérstaklega í fjármálakerfi landsins. Okkur hefur ekki tekist enn nógu vel upp í því efni."

En værir þú ekki í betri stöðu til að vinna að þessum verkum innan ríkisstjórnar?

"Jú jú, vissulega og þess vegna er ég að vissu leyti sorgmæddur yfir að þurfa að stíga þetta skref. En starfið má ekki vera á kostnað grunngilda sem snerta þingræði og virðingu fyrir Alþingi. Ég vil að það sama sé gert gagnvart stjórnarandstöðu nú og ég vildi að væri gert gagnvart okkur þegar við vorum í stjórnarandstöðu."

Eru athugasemdir Breta og Hollendinga slíkt úrslitaatriði að þú getir ekki stutt samninginn?

"Ég gef mér ekkert í þeim efnum. Það er ennþá verið að jagast á um þetta. Mér persónulega finnst að við hefðum hreinlega átt að skipa nýja samninganefnd á vegum Alþingi og fara þannig fram með málið. Í formlegu samningaferli, ekki í neinum þreifingum, með aðkomu allra flokka á Alþingi. En málið er í þessum farvegi og þá skoðum við stöðuna í því ljósi."

AGS í burtu sem fyrst

En er málið ekki einhvern tímann fullrætt og rétt að samþykkja eða hafna og færa sig á næsta stig?

"Þegar við erum að ræða um 7 eða 800 milljarða skuldbindingar geta menn ekki leyft sér eitthvert svona óþolinmæðis- eða þreytutal. Ef Alþingi er þreytt ferð það bara og leggur sig og safnar kröftum og kemur síðan óþreytt til verka og gerir það sem er rétt og skynsamlegt í málinu. Svo einfalt er það."

En hvaða valkostur er við Icesave? Þarf hann ekki að vera skýr?

"Menn hafa stundum velt því fyrir sér hvort til er eitthvað sem heitir plan b og telja þá væntanlega að við fylgjum plani a. Plan b er náttúrulega einfaldlega að rísa á fætur gagnvart þessum grimma, ágjarna og ofbeldisfulla umheimi sem hefur stöðugt í hótunum við okkur. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera það í ríkari mæli en við höfum gert.

Þá horfi ég til dæmis til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins [AGS] sem er hér kominn inn á gafl. Við þurfum að losna við hann sem allra fyrst. Sumir standa í þeirri trú að hann hafi gefið okkur einhver hagfræðiráð. Svo er ekki. Þetta er pólitísk stofnun sem gengur erinda lánardrottna og sér til þess að allir skuldunautar greiði þeim í topp, hvort sem þeir eru borgunarmenn fyrir því eða ekki. Þetta hefur ekkert með efnahagsráðgjöf að gera.

Sjóðurinn reynir samræma aðförina að Íslandi með því að loka á alla lánaliði og hafa í hótunum við þá sem ætla að veita Íslendingum fyrirgreiðslu."

En breytir sjóðurinn um stefnu í þeim efnum þó við vísum honum út?

"Ég held að við þurfum að segja við AGS: takk fyrir komuna, nú skuluð þið hafa ykkur á braut og við gerum þetta á eigin forsendum. Það verður hins vegar ekki gert nema við sannfærum aðrar þjóðir sem taka þátt í þessu spili, eins og Norðurlandaþjóðirnar og aðra sem raunverulega vilja rétta okkur hjálparhönd, að þær eigi ekki að fara að skipunum AGS eða Evrópusambandinu. Ekki gleyma hlut þess í málinu."

Sumir hafa nefnt að töf á Icesave geti skaðað lánshæfismat okkar og komið fyrirtækjum eins og Landsvirkjun illa. Hvað segirðu við því?

"Ég á svolítið erfitt með að skilja að lánshæfismatið lagist mjög mikið ef þér tekst að hlaða á þig meiri skuldum. Það lagast hjá okkur ef okkur tekst að reisa við íslenskt efnahagslíf og ég hef trú á því að það sé að reisa sig. Grunnstoðirnar í íslensku efnahagslífi eru ekki feysknar, þær eru traustar."

Treysti félögum mínum

En ef Icesave og aðkoma AGS eru svona slæm mál, hvernig geturðu þá stutt ríkisstjórn sem styður þau mál?

"Vegna þess að ég veit að hún er að gera sitt besta og ég ber fullt traust til félaga minna í þeim efnum. Icesave er erfitt mál og þar eru miklar skuldbindingar. Hins vegar eru mörg spurningarmerki í því sambandi. Kannski verður þetta okkur ekki eins þungbært og margir óttast, einfaldlega vegna þess að eignirnar ganga þarna upp í. Hins vegar erum við að hlaða á okkur miklum vaxtaklyfjum.

Það sem ég hef sett fyrir mig í þessu efni er fyrst og fremst það hvernig við berum okkur að í málinu. Er það hégóma- og smámál? Nei, það er grundvallaratriði, grundvallarmál. Við skulum ekki gleyma því hvað varð þess valdandi að Íslendingar lentu í ógöngunum. Það var vegna þess að við lögðum ekki nægilega rækt við lýðræðið, við gagnsæið, við opin vinnubrögð þar sem margir eru til kallaðir og hlustað á fólk.

Það var kjarni vandans og við eigum að læra af því. Þess vegna er það ekki smámál hvernig staðið er að verki; það er stórmál."