FJÁRMAGN GEGN FÓLKI


Forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt, segir að Svíar muni ekki lána Íslendingum fyrr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gefi grænt ljós:"Við viljum að Ísland haldi sig við þessar alþjóðlegu skuldbindingar og í kjölfarið munum við standa við okkar loforð."

Strauss Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að hann gefi ekki grænt ljós fyrr en aðstandendur sjóðsins ( les: hinn kapítalíski heimur ) gefi grænt ljós. Og aftur er talað um skuldbindingar Íslands undir sömu formmerkjum.

Skyldu Svíar skilja að "skuldbindingarnar" eru skilyrðin sem Bretar og Hollendingar hafa þröngvað upp á okkur undir hótunum?

Skyldu Svíar skilja að Íslendingar véfengja greiðsluskyldu sína? Skyldu Svíar skilja að greiðsluskilmálarnir eru ósvífin þvingunarúrræði?

Skyldu Svíar skilja að þeir eru orðnir handrukkarar Breta og Hollendinga?

Kannski finnst Reinfeldt forsætisráðherra það vera í góðu lagi að gerast handrukkari. En hvað skyldi sænsku þjóðinni finnast um þetta nýja hlutverk sitt? Hvað skyldi þjóðinni sem átti Olov Palme finnast um að vera komin í fótgöngulið fjármagnsins gegn fólkinu? Skyldu menn almennt átta sig á því að viðhorfsbreytingin í Evrópu á meðal almennings er vegna þess að fólk er farið að stilla dæminu svona upp: Annars vegar hinir eignalausu. Hins vegar þeir sem töpuðu innistæðum sínum. Almennt finnst fólki ekki sjálfgefið að hinir eignalausu, eða þeir sem eru lasburða og þurfa á velferðarþjónustu að halda, verði látnir blæða til að hinir missi ekki spón úr aski.

Þannig er almenningur í Evrópu að byrja að líta á málin. Hann þarf hins vegar að sannfærast um að séð verði til þess að fjárglæfrabófar skili hverri krónu; skili ránsfengnum. Um ásetning Íslendinga hvað þetta varðar má ekki leika nokkur vafi. Tiltrúin má ekki bara byggja á orðstír Evu Jolý. Hún hefur gert meira fyrir Ísland en flestir aðrir. Hún staðfestir nefnilega gagnvart umheiminum með nærveru sinni og verkum sínum að Íslendingar vilja réttlæti.

Þetta þurfum við að segja Svíum milliliðalaust, Líka Norðmönnum, Dönum og Finnum og öllum öðrum,  alþýðu manna í Bretlandi, þeirri sömu alþýðu og kýs Brown og Miliband á þing, og í Hollandi. Í þessum löndum öllum þekkja menn frekjuna í fjármagninu og almennt halda menn meira með fólki en fjármagni.

Fréttabréf