LÝÐRÆÐI EÐA FORRÆÐI?


Ákvörðun forseta Íslands að beita málskotsrétti, þ.e. neita að undirrita lagafrumvarp og skjóta því til þjóðarinnar til ákvörðunar hefur vakið hörð viðbrögð og sannast sagna annars konar en ég hafði búist við.

Fræðimenn viðra viðhorf

Fræðimenn hafa talað um að forsetinn sé að "þvælast fyrir" ríkisstjórninni og það sé "mjög óþægileg staða fyrir ríkisstjórn og þingmeirihluta hverju sinni að þurfa að eiga það yfir höfði sér að erfiðum málum, sem að þeim hefur tekist að koma í gegnum þingið, sé synjað með þessum hætti."(Davíð Þór Björgvinson, lagaprófessor og dómari, í viðtali á Bylgjunni 6. janúar). Sama morgun var velt vöngum yfir því í RÚV hvort forsetinn væri að eyðileggja þingræðið: " Og hann núna í tvígang beitir málskotsréttinum, sem hann hefur skv. stjórnarskránni, en um leið og það er sagt verður að fylgja eftir að allir fyrirrennarar hans í embætti íhuguðu á stundum að beita málskotsréttinum en komust ætíð að þeirri niðurstöðu að forseta bæri að fara eftir meirihlutavilja þings og það væri þingræði sem ætti að blífa hér á Íslandi. Núverandi forseti kemst að annarri niðurstöðu og þá hlýtur maður að velta þeirri spurningu upp: Er núverandi forseti upp á sitt einsdæmi að reyna að koma á forsetaþingræði í landinu? Ekki beint forsetaræði, þar sem forsetinn stýrir ríkisstjórninni og skipar hana sjálfur, ekki þingið, heldur þar sem hann, eins og í Finnlandi og Frakklandi, meira og minna vasast í öllum innanlandsmálum sem og erlendum málum.." (Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og háskólakennari í viðtali á Rás 2 í RÚV 6. janúar)

Fagmenn og lýðskrumarar

Mörg fleiri dæmi er að hafa um athyglisverð viðhorf um þessi efni á undanförnum dögum. Hér á síðunni birtist lesendabréf þar sem hreinlega er varað við beinu lýðræði: "Það er langt frá því að aukin þátttaka almennings í stjórnun landsins með þjóðaratkvæðagreiðslum sé samasammerki með réttlátara samfélagi. Dæmin tala sínu máli. Í Bandaríkjunum eru til ríki sem ganga afar langt í þessum efnum og almenningur fær að kjósa um flest mál. Þessi ríki eiga það sammerkt að vera skuldugusu ríki Bandaríkjanna, opinber þjónusta er engin og félagslegt óréttlæti mest. Þá virðast lög í anda rasisma eiga greiða leið í slíku fyrirkomulagi eins og nýlegt dæmi frá Sviss sýnir. Staðreyndin er nefnilega sú að lýðskrumarar með aðgang að peningum eiga mun auðveldara með að koma málum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu heldur en faglega umræðu á þjóðþingi." ( Sjá bréf frá Pétri: http://www.ogmundur.is/fra-lesendum/nr/4985/ )

Réttur til sjálfsákvörðunar

Gagnstæð sjónarmið koma einnig fram: "Hvers konar viðhorf eru það sem fram koma gagnvart þjóðinni, ef menn vilja taka frá henni réttinn til að bera ábyrgð á örlögum sínum? Mér finnst það vera síð-sovésk viðhorf þess sem allra síst ætti að leyfa sér mannfyrirlitningu af þessu tagi. Viðhorfið sem fram kemur í afstöðu þessari undirstrikar enn frekar að ákvörðun forseta um þjóðaratkvæði er rétt, og kannski er ákvörðun forseta dýpri en okkur grunar. Kannski er það einmitt viðhorf stofnanaveldisins gagnvart þjóðinni sem forseta finnst rétt að menn ræði í bland við annað. Kannski finnst honum líka að með samfélagsþróun undanfarinna ára hafi orðið til stöðugt dýpkandi gjá milli þings og þjóðar, milli almennings og stofnanaveldisins, sem stefnir samfélagsgerðinni í voða til lengri tíma litið". (Sjá bréf frá Ólínu: http://www.ogmundur.is/fra-lesendum/nr/4988/ )

Hver þvælist fyrir hverjum?

Að hvaða leyti eru viðhorf fræðimannanna og Péturs annars konar en ég hafði búist við? Í fyrsta lagi þykja mér þessir aðilar horfa fram hjá því að forsetinn er ekki að taka sína ákvörðun samhengislaust. Fjórðungur atkvæðisbærra manna í landinu hafði farið þessa á leit við hann! Þessi fjórðungur kemur þó  ekki til með að ráða úrslitum í málinu. Það gerir þjóðin öll í lýðræðislegri kosningu. Þannig er það ekki forsetinn sem er "að þvælast fyrir" heldur þjóðin. Það er þjóðin og lýðræðið sem truflar hina "faglegu" aðila á Alþingi , sem vikið er að í bréfi Péturs. Í mínum huga er ákvarðanataka í lýðræðisþjóðfélagi alltaf spurning um fagmennsku að því marki að mikilvægt er að ástunda vönduð og upplýst vinnubrögð. En rétturinn til ákvarðanatöku er okkar allra og verður ekki yfirtekinn af "faglegum" aðilum ef við kjósum að taka ákvörðun beint en ekki í gegnum fulltrúa á þingi. Í Sovétríkjunum náði fagmennskan slíkum hæðum að sérstakir hugmyndafræðingar úrskurðuðu um hvaða skoðanir voru réttar og hverjar rangar. Þegar öll helstu almannasamtök í landinu óskuðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um EES samninginn 1994 var því neitað, m.a. á þeirri forsendu að þetta væri svo flókið mál að þjóðinni væri ekki treystandi að fara með það! Ég hélt að þessi tími væri liðinn og málið snerist þá kannski helst um það að fjarlægja forsetann sem millilið þannig að það gerðist sjálfkrafa að mál færi til þjóðarinnar ef fram kæmi að fyrir því væri nægur lýðræðislegur vilji.

Íslendingar vilja réttlátt samfélag

Rökum Péturs um að lýðræði í of stórum skömmtum leiði til ranglætis andmæli ég á tvennum forsendum. Í fyrsta lagi þykja mér þau byggja á forrræðishyggju. Þetta voru rök borgarastéttar 19. aldarinnar sem vildi halda kosningarétti takmörkuðum. Sýn hennar á skaðsemi lýðræðisins tengdist að sönnu hagsmunum hennar en er ekki hætt við því að einmitt það gerist á öllum tímum? Ástæðuna fyrir skuldsetningu fylkja í Bandaríkjunum og félagslegu ranglæti tel ég auk þess vera aðra en beina ákvarðanatöku almennings, held hún hafi meira með stöðu þjóðfélagsmála almennt að gera óháð formlegu lýðræðislegu valdi. Athyglisvert í þessu samhengi er að gaumgæfa skoðanakannanir hér á landi þar sem spurt hefur verið um viðhorf til skatta og velferðarþjóðnustu. Í nánast öllum könnunum hefur komið fram yfirgnæfandi meirihlutastuðningur við að fjármagna velferðakerfið með sköttum og hefur meirihluti jafnan verið fyrir því að borga háa - og jafnvel hærri - skatta sé tryggt að þeir renni til heilbrigðisþjónustunnar eða annarrar mikilvægrar velferðarþjónustu. Þá má spyrja hvort það hefði verið til ills að efnt hefði verið til þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildar ráðstafanir á undangengnum tveimur áratugum. Er það hollt að ríkisstjórninr komi "erfiðum málum", svo vitnað sé í prófessor Davíð Þór, auðveldlega í gegn?  Hefði verið virkjað við Kárahnjúka, hefðu bankarnir verið einkavinavæddir og sjávarauðlindin ef þurft hefði að eiga það við þjóðina beint? Hefði heita vatnið verið einkavætt? Ég held ekki. Spurningin snýst þó ekki um útkomuna heldur um lýðræðislegan vilja, um lýðræði eða forræði.

Fréttabréf