MARKMIÐ OKKAR ALLRA ER HIÐ SAMA


Í viðtali Morgunblaðsins við Svavar Gestsson, formann samninganefndar ríkisins í Icesave deilunni sl. vor, bendir hann á þann gríðarlega þrýsting sem Íslendingar hafa verið beittir af hálfu alþjóðafjármálakerfisins í tengslum við Icesave: "Öll aðildarríkin að Evrópska Efnahagssvæðinu (EES), öll Norðurlöndin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF). Allir þessir aðilar voru sammála um að við ættum að standa við þessa skuldbindingu okkar. Við vorum fjarska ein í heiminum á þessari stundu. Það hefði verið útilokað að virða ekki vilja alþjóðasamfélagsins."
"Skuldbindingin"
sem Svavar vísar til er sá skilningur Breta og Hollendinga að íslenskum skattgreiðendum beri skylda til að greiða lágmarkstryggingu á Icesave reikningunum í Bretlandi og Hollandi. Þennan skilning hafa Íslendingar dregið í efa sbr. fyrirvara Alþingis á ríkisábyrgð frá því í septemberbyrjun sl. og svo aftur í desemberlok.

Öll spjót stóðu á Íslandi

Mat Svavars Gestssonar er eflaust hárrétt. Spjótin hafa staðið á okkur, enda framferði íslenskra fjármálabraskara glæpsamlegt og alltof lítið gert af okkar hálfu að rétta hlut okkar í augum umheimsins. Allar götur frá hruni hafa Íslendingar því staðið aleinir. Eða nánast. Færeyingar sýndu að smæðin er afstæð þegar þessi fámenna (raunverulega) vinaþjóð var reiðubúin að hunsa hótanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins og koma Íslendingum til hjálpar án allra skuldbindinga. Núna heyrast hins vegar fleiri og fleiri raddir erlendis sem tala máli Íslands, efast um að ofríkiskröfur Breta og Hollendinga standist og vilja að samningarnir verði teknir upp.
Hvað gerum við þegar slíkra viðhorfa fer að gæta? Við nýtum þau okkur að sjálfsögðu til hins ítrasta.
Að sjálfsögðu hefðu samningamenn okkar fagnað slíkum andblæ inn á samningaborðið síðastliðið vor. Við hefðum gert það öll. Og hljótum að gera það enn. Þegar málsmetandi aðilar í evrópskum stjórnmálum, fjölmiðlaheimi og á meðal almennings taka undir með okkur, á faldi íslenskrar lýðræðisbylgju, hljótum við að lyfta jákvæðum röksemdum sem fram eru reiddar en ekki tala þær niður einsog hefur viljað brenna við. Í stað þess að horfa aftur á bak og sýta erfitt hlutskipti okkar eigum við að fagna því þegar staðan batnar og vinna að því að bæta hana enn meira. Það er verkefnið. Sjálfur hef ég alla tíð líkt þessari þrautagöngu við það að stíga syllu af syllu, að reyna skref fyrir skref að bæta stöðu okkar.

Nauðungarsamningar eru aldrei ásættanlegir

Nánast allt sem gerst hefur í þessu máli hefur verið með hnífinn á barkanum. Allir samningar undir nauðung. Þannig eigum við líka að tala um þá og falla aldrei í þá gryfju að verja þá stöðu sem uppi er - nema hún sé ásættanleg. Það er hún ekki. Upp á það hefði ég haldið að allir þeir sem komið hafa að þessum málum til að leggja hönd á plóg, gætu tekið undir. Þar vísa ég til þeirra sem komið hafa beint og óbeint að þessum málum fyrir hönd framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Mér finnst engin mótsögn í því fólgin annars vegar að hafa stutt nauðungarsamning á fyrri stigum á þeirri forsendu að lengra yrði ekki komist við óbreyttar aðstæður og svo hins vegar að taka annan pól í hæðina þegar aðstæður hafa gerbreyst. Við megum aldrei gleyma því að verið er að beita Ísland ofbeldi og nauðungarþvingun.Við erum því siðferðilega skuldbundin á allt annan hátt en gerist þegar samið er af fúsum og frjálsum vilja. Hver svo sem skoðun okkar hefur verið til þessa þá er engin ástæða til að við göngum sundruð til verka, sundurtætt af gagnkvæmum ásökunum. Markmiðið hjá okkur öllum er hið sama og hefur alltaf verið: Að vinna málstað þjóðar okkar vel.

Fréttabréf