ÖLL GÖGN UM ÍRAK FRAM Í DAGSLJÓSIÐ!

Á eyjunni er vakin athygli á því að Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður vilji "að sérstök rannsóknarnefnd verði skipuð til að upplýsa um aðdraganda og ástæður þess að Ísland var á lista stuðningsþjóða innrásarinnar í Írak vorið 2003." http://eyjan.is/blog/2010/01/26/kristinn-vill-rannsoknarnefnd-til-ad-upplysa-um-studning-islands-vid-innrasina-i-irak-2003/
Gott er að finna fyrir stuðningi Kristins H. Gunnarssonar hvað þetta varðar en fyrir þinginu liggur beiðni frá mér og fleirum um að öll gögn í þessu máli verði gerð opinber og upplýst um það niður í kjölinn. Þingsályktunartillagan er svohljóðandi:  "Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að sjá til þess að birt verði öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem fyrir liggja frá ársbyrjun 2002 til desember 2003 sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta og annarra þjóða í Írak árið 2003."
Ítarleg greinargerð flylgir þingsályktunartillögunni og eru upphafsorðin eftirfarandi "Ein umdeildasta ákvörðun íslenskra stjórnvalda í seinni tíð er stuðningur Íslands við innrásina í Írak. Á Alþingi var m.a. deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að Ísland veitti stuðning við innrásina; yrði hluti af því sem Bandaríkjastjórn kallaði "hinar viljugu þjóðir" eða "coalition of the willing". Sem kunnugt er var Ísland sett á lista Bandaríkjastjórnar um "hinar viljugu þjóðir" sem fyrst var greint frá á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem haldinn var 18. mars 2003. Þar taldi talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, upp þau ríki sem í hlut áttu, sagði að þau hefðu verið spurð hvert um sig og fengist hafi afgerandi svör. (Í opinberum gögnum er að finna orðrétta frásögn af fréttamannafundinum þar sem þetta kom fram..."
Hugmynd Kristins H. Gunnarssonar um rannsóknarnefnd er góð og að mínu mati æskileg til að fylgja eftir því sem farið er fram á í þingsályktunartillögunni.
Sjá hér nánar umfjöllun mína um þetta efni frá því í desember. http://ogmundur.is/stjornmal/nr/4915/

Fréttabréf