HÆTTUM BLEKKINGUM

Birtist í Morgunblaðinu 5.2.10
MBL - LogoÞórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, skrifaði grein í norska stórblaðið Aftenposten, sem vakið hefur athygli. Ég, á meðal annarra, hef gagnrýnt skrif Þórólfs harðlega. Hann hefur brugðist við gagnrýni minni, m.a. á vefmiðlinum Pressunni. Heldur hann sig við sama heygarðshorn og í Aftenposten þar sem hann gerir því skóna að gagnrýnendur Icesave-samningsins hér á landi fari með ósannindi og máli skrattann á vegginn.

Staðreyndir?
Lítum aðeins á »staðreyndir« Þórólfs. Hann segir að þegar upp verði staðið þurfi Íslendingar aðeins að greiða 6 til 8 milljarða norskra króna og sé það vel viðráðanlegt. Verðgildi norsku krónunnar er nú tuttugu og tvöfalt verðgildi hinnar íslensku þannig að um er að ræða 130 til 176 milljarða greiðslu.

Nú er það svo að gangi björtustu vonir eftir innheimtast 90% af eignum Landsbankans sem ganga eiga upp í meintan Icesave-reikning. Það þýðir að eftir standa af rúmlega 700 milljörðum 70 milljarðar. Það breytir því ekki að allur höfuðstóllinn stendur á vöxtum eins og hann hefur gert frá 1. janúar 2009. Það gerir um 40 milljarða á síðasta ári og aðra 40 milljarða á þessu ári að öðru óbreyttu. Samtals eru þetta 150 milljarðar. Með öðrum orðum, samkvæmt þessu er ekki annað að sjá en reikningar Þórólfs gangi upp.

Um fegrun og skrök
Þórólfur biður okkur sérstaklega um það í skrifum sínum »að fegra ekki myndina«. En hvað gerir hann sjálfur? Í fyrsta lagi gefur hann sér allra hagstæðustu líkur á innheimtum sem mögulegar eru en lætur þess að engu getið að um bjartsýnustu líkindaspá er að ræða. Í annan stað gefur hann sér að eignirnar innheimtist allar á þessu ári eða því næsta, ella þyrfti að reikna með vöxtum og vaxtavöxtum í mun lengri tíma.

Landsbankinn hefur látið Alþingi í té mat sitt á því hve langan tíma taki að innheimta allar eignir, og er þar talað um allt að heilan áratug. Hjá Skilanefnd hefur komið fram að ekki verði greitt út fyrr en séð er fyrir endann á hugsanlegum málaferlum og er það talið ólíklegt fyrr en árið 2011. Á meðan koma mjög lágir vextir á fjármagn sem innheimtist í Bretlandi fyrir eignir á sama tíma og vaxtakvörnin malar á Ísland með 5,55% vöxtum og síðan vaxtavöxtum.

Spár sem birst hafa opinberlega, og teljast bjartsýnisspár, hafa gert ráð fyrir að mun hærri upphæðir lendi á íslenskum skattborgurum miðað við óbreyttan samning, en Þórólfur gerir ráð fyrir eða um 3 hundruð milljarðar, svartsýnni spár gera ráð fyrir þrisvar sinnum hærri upphæð en Þórólfur nefnir, eða rúmlega 5 hundruð milljörðum, sbr. grein Jóns Daníelssonar við London School of Economics í Morgunblaðinu 15. janúar sl. Hann gerir ráð fyrir 120 milljarða greiðslu vegna höfuðstóls, 387 í vexti og vaxtavexti, samtals 507 milljörðum. Hafa ber í huga að allir þessir útreikningar eru byggðir á líkindareikningi. Þar skiptir máli að menn sýni yfirvegun og hafi góða yfirsýn.

Þórólfur víkur að þessu á vefmiðlinum Pressunni: "Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært af Icesave málinu, þá er það það, að það að skrökva er lélegt viðskiptalíkan... Ég held að skrök sé ekki betra viðskiptalíkan í sambandi við lausn Icesave-deilunnar en það var þegar til Icesave-vandans var sáð í upphafi að því er virðist með fegrun og skröki."

En eru hans útlistanir ekki harla óskhyggjukenndar? Þær koma mér fyrir sjónir sem einmitt sú »fegrun« sem hann varar við. Og hvað er langt frá "fegrun" yfir í "skrök"?

Háskóli Íslands í 15 ár
Ég læt í þessu greinarkorni liggja á milli hluta hversu léttvæga menn telja milljarðana vera sem eiga að fara úr ríkiskassanum til að borga upp Icesave. Það hefur vakið undrun mína að sjá jafnvel háskólaprófessora í hagfræði færa það fram sem rök til varnar Icesave-samningnum að hann sé léttvægur því hann sé lítið hlutfall af öðrum skuldbindingum ríkissjóðs og er þá meðal annars vísað til lána sem tekin eru til að stoppa upp í geigvænlegan fjárlagahalla. Í mínum huga vegur Icesave-skuldbindingin einmitt þyngra vegna þess hve aðrar skuldbindingar eru miklar! 150 milljarðar - bjartsýnistala Þórólfs - er jú rekstrarframlag ríkisins til Háskóla íslands í 15 ár.

Slæmt ef Norðmenn vilja hjálpa?
Í grein sinni hvetur Þórólfur norsk yfirvöld til að leiða Íslendingum - okkur - það fyrir sjónir að við eigum að samþykkja Icesave-samninginn einsog hann stendur, möglunarlaust. Ella munum við hafa verra af. Hvers vegna? Jú, væntanlega vegna þess að við yrðum að öðrum kosti beitt þvingunum af hálfu annarra ríkja. En bíðum við. Norðmenn eru í þeim hópi. Hvers vegna ekki beina því til þeirra að láta af þvingunum í garð Íslendinga - fyrst á annað borð er verið að skrifa í norsk blöð? Er það kannski slæmt ef sú stefnubreyting yrði í Noregi að þarlend stjórnvöld hættu að skilyrða lánveitingar frágangi Icesave á forsendum Breta og Hollendinga?

Svindlarar að hætti Madoffs?
Þórólfur Matthíasson segist frábiðja sér öll ósannindi. Skrök hafi leitt til hrunsins. Menn eigi að vanda málflutning sinn. En hvað þá með að líkja okkur sem gagnrýnum Icesave-samninginn eins og hann nú stendur við bandaríska stórsvindlarann Madoff? Sá fékk 150 ára fangelsisdóm fyrir einhver svívirðilegustu fjársvik í samtímanum. Er svona framsetning kennd í hagfræði við Háskóla Íslands? Var ekki meiningin að hverfa frá blekkingartali - hvort sem því er beint að okkur sjálfum eða öðrum?

Fréttabréf