Fara í efni

GRÆÐGI, SKORTUR Á GAGNSÆI OG HINIR AUÐSMALANLEGU


Rannsóknarskýrslan sem birt var í dag er mikilvæg fyrir margra hluta sakir. Hún er söguleg heimild og frá sjónarhóli efnahags- og stjórnmála hefur hún að geyma alvarleg varnaðarorð sem enginn getur leyft sér að horfa fram hjá.

Það mun taka nokkra stund að átta sig á öllum þáttum þessarar viðamiklu skýrslu en við fyrstu sýn er fátt sem kemur á óvart. Staðhæfingar um reikningsfalsanir, rangfærslur á ársreikningum og „fegrunaraðgerðir" bankanna eru nýjar af nálinni þótt grunsemdir hafi legið í loftinu. Slíkt fer nú í farveg réttarkerfisins.

Það er ömurlegt til þess að hugsa að flest af því sem varað var við þegar bankarnir voru einkavæddir reyndist  ekki ástæðulaust. Ef eitthvað, þá varð íslenska fjármálakerfið að enn stærra og spilltara spilavíti en ímyndunarafl fólks almennt gat gert ráð fyrir.

Eftirlitsstofnanir og stjórnmálamenn, sem veita áttu aðhald, sýndu allt of margir andvaraleysi,  sváfu einsog sauðir. Þar horfi ég sérstaklega til þeirra stjórnmálaflokka sem fóru með landstjórnina á árunum í aðdraganda hrunsins, ekki bara einstakra ráðherra,  heldur líka hinna, ráðherranna allra, þingmannanna allra og annarra flokksmanna  sem leyfðu forræðisstjórnmál; ég horfi almennt til hinna auðsmalanlegu.

Eitt það hrikalegasta sem fram kemur í skýrslunni er nefnilega ógagnsæið og skortur á lýðræðislegu aðhaldi. Ríkisstjórnir létu bjóða sér upp á þögn þegar þeim bar að krefjast upplýsinga. Sama gilti um þingflokka stjórnarmeirihlutans á þessum tíma. Það mátti nefnilega hverju barni vera ljóst að stefndi í óefni og að tími var til að hverfa frá ólýðræðislegum og ógagnsæjum vinnubrögðum. Á fréttamannafundinum var talað um skaðleg áhrif foringjaræðis!

Rannsóknarskýrslan á eftir að hafa mikil áhrif. Ekki vegna þess að hún hengi mann og annan. Heldur vegna hins að í skýrslunni kemur fram hve skipulegt misferlið var, hve algert var andvaraleysið og hve margir bera þar sök.

En skýrslan er líka stórvirki sýnist mér, sigur fyrir íslenskt samfélag, staðfesting á að þrátt fyrir allt eigum við sem samfélag fólk sem getur, kann og skilur. Í því gæti framtíð okkar falist, endurreisnin. En þá verðum við hvert og eitt að hugsa okkar gang: Hvað gátum við gert öðru vísi? Aðeins með því að skoða hug okkar með ganrýnum hætti; stjórnmálamenn, embættismenn, ráðherrar, lántakendur, lánveitendur, kjósendur, öll þurfum við að grandskoða hugsun okkar. 

Við þurfum að koma höndum yfir glæpamennina sem tæmdu bankana og tryggja að þeir fái dóma svo sem lög standa til, en þetta er ekki bara þeirra mál. Allir þurfa að temja sér að byggja upp sam-félag, ekki samfélag hinna útvöldu, ekki samfélag forystusauða, heldur opið, gagnsætt, lýðræðissamfélag þar sem réttur hvers og eins er virtur. Þjóðfélag þar sem ekki er ráðskast með fólk. Þjóðfélag þar sem fólk lætur ekki ráðskast með sig.