ÞAÐ Á EKKI AÐ HAFA MENN FYRIR RANGRI SÖK


Það er rétt sem fram kemur í rannsóknaskýrslunni; viðskiptaráðherra hlýtur jafnan að bera mikla ábyrgð þegar bankar falla. Alveg eins og skipstjóri á strandaðri skútu sem var í koju að kröfu útgerðarmannsins sem sigldi sjálfur fleyi sínu á land. Það vita allir að Björgvin Sigurðssyni  var haldið utan við ákvarðanatöku - fékk ekki réttar upplýsingar um ganginn í bankakerfinu - þegar hann gegndi stöðu viðskiptaráðherra í aðdraganda hrunsins. Hann hafði hins vegar hina "formlegu" ábyrgð á hendi. Þessa vegna er hann skiljanlega stimplaður á ennið í Rannsóknarskýrslunni frægu.

En er þetta rétt? Eða kannski öllu heldur, er þetta réttlátt? Það er einhverju ábótavant þegar allir vita innst inni hvað rétt er, en "formið" segir annað. Þess vegna spyr ég: Er rétt að hengja Björgvin Sigurðsson upp í hæsta gálga en hlífa öllum hinum sem raunverulega komu að ákvarðanatöku, voru í hringiðunni, sátu á fundunum, og voru því ábyrgir með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi eftir atvikum.

Björgvin Sigurðsson átti vissulega að vita hvað var að gerast. Það gerði hann ekki. Hvað hlutdeild hans snertir þá var öll þáverandi ríkisstjórn meðsek. Hún ræddi þessi mál ekki einu sinni á fundum sínum! Sekt hennar er fólgin í andvaraleysi og meðvirkni.

Ráðherrar voru sem sauðir. Hlýðnir og gagnrýnislausir - auðsmalanlegir. Þannig vildu foringjarnir hafa það. Og vilja sumir enn. Í hópnum  var að sönnu téður Björgvin Sigurðsson. Hann er hægt að áfellast fyrir sauðshátt. Einsog hin. En upplýsingum var haldið frá honum. Hann er því ekki sá sakamaður sem sumir vilja vera láta. Því fer fjarri. Þó er það hann sem er hengdur upp. Það er dapurlegt að horfa á tilraunir til mannfórna svo fría megi aðra. En dagur kemur eftir þennan dag. Gleymum því ekki!
Eftir stendur að rannsóknarnefndin lét ósvarað spurningunni hvernig ætti að ábyrgðarvæða þau sem bar að tryggja að öll meginmál væru rædd í ríkisstjórn samkvæmt stjórnarráðslögum en gerðu sér far um að gera það ekki. Það hefði verið áskorun fyrir stjórnsýslufræðingana að svara því og útdeila ábyrgð á þeim grundvelli. Þessi spurning er í mínum huga ekki aðeins áhugaverð fortíðarinnar vegna heldur ekki síður samtímans og framtíðarinnar vegna. Lærdómurinn af hruninu á heima hér og nú og um alla framtíð.

En hvað varðar tilefni þessara skrifa þá er mergurinn málsins þessi: Lög og réttur eru eitt, en réttlætið annar hlutur. En þannig á það náttúrlega ekki að vera. Lögin og réttlætið þurfa að fara saman. Viðfangsefni réttarríkisins er að sjá til þess að svo verði.

Fréttabréf