ENGA ÞÖGGUN TAKK!

Haft var eftir forsætisráðherra í fréttum í gær að þingmenn stjórnarflokkanna ættu ekki að bera ágreiningsefni á torg. Stjórnin ætti að sýna "styrk og samstöðu útífrá" . RÚV gerði talsvert mikið úr þessum ummælum forsætisráðherra og birti mynd af Lilju Mósesdóttur greinilega sem meintum sakamanni í málinu. Áður hafði Árni þór Sigurðsson, varaformaður þingflokks VG komið fram í fjölmiðlum og sagt framkomu Lilju Mósesdóttur vera lítilmótlega.  Ekki ætla ég að sitja þegjandi undir þessu því þetta er ómaklegt í garð Lilju Mósesdóttur.
Í fyrsta lagi þá þarf að skoða þetta mál í réttu samhengi. Ekki er ofsögum sagt að þorra fólks í landinu hafi brugðið í brún þegar í ljós kom að verið var að ganga frá samningum við kanadískt skúffufyrirtæki  um ráðstöfunarrétt á  allri orku á Reykjanesskaganum í nokkra mannsaldra. Ekki var stuðningsmönnum VG síst brugðið, alla vega þeim sem kosið höfðu flokkinn til að standa vörð um náttúruauðlindirnar.  Áður hafði málið komið upp, flokksráð ályktað síðan haldinn sameiginlegur fundur stjórnar og þingflokks þar sem samþykkt var eindreginn kvöð á ráðherra flokksins að fara með það í ríkisstjórn að þar yrði gengið frá því að orkuverin á Suðurnesjum yrðu í meirihlutaeign landsmanna. Það kom því mörgum á óvart þegar í ljós kom að Magma Energy væri að ná sínu fram. Meintur glæpur Lilju Mósesdóttur var að upplýsa þetta. Lítílmótlegt? Nei.  Ef þetta var lítilmótlegt af hennar hálfu þá er það einnig lítilmótlegt af minni hálfu að taka undir með henni. Ég sé að Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi, hefur staðfest þessa frásögn á Smugunni en hann sat umrædda fundi, þ.á m. þingflokksfund, sem einn helsti hvatamaður í málinu.
Í öðru lagi verð ég að segja að þöggunarstjórnmál eiga að heyra sögunni til. Ein meginástæða hrunsins var það viðhorf að undir engum kringumstæðum mætti anda á forsvarsmenn í ríkisstjórn. Það myndi skaða og ekki sýna trúverðugleika og styrk út á við. Nú er Lilju Mósesdóttur legið á hálsi að orða þessa hluti nú rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hvers vegna gerir hún það og þá einnig ég? Vegna þess að það er verið að ganga frá samningum við Magma núna - reyndar  er búið að því. Lilja Mósesdóttir  var spurð hvers vegna hún hefði ekkert gert. Hún upplýsti um hvað hún hefði gert. Varð það rangt af henni? Skaðar það VG sem baráttuhreyfingu? Nei, ef eitthvað er, þá styrkir það VG að ræða hlutina opinskátt einsog þeir eru. Einmitt það þarf að gera gagnvart öðrum flokkum. Hver er raunverulegur vilji þeirra? Íraksstríð og sala á dýrmætum almannaeignum á undangengnum árum var framkvæmd af flokkum sem sögðu eitt fyrir kosningar, annað eftir kosningar.
 
Það er svo nánast sjálfstætt viðfangsefni að  finna út úr því hvers vegna samþykktir flokksráðs og þingflokks VG gengu ekki eftir. Þess vegna hef ég hvatt fjölmiðla til að spyrja stjórnmálmenn og stjórnmálaflokka hvað þeir raunverulega vilji í þessu máli - ekki bara varðandi Suðurnesin heldur orkuauðlindirnar almennt. þetta ætti að vera stóra málið í kosningunum nú.
Telja þeir mikilvægt að orkuöflunin sé á hendi og undirforræði almennings eða finnst þeim í lagi að kanadískt skúffufyrirtæki eða þess vegna íslenskir braskarar fái þær í hendur til að græða á þeim?
Hvað finnst Sjálfstæðisflokknum?
Hvað finnst Samfylkingunni?
Hvað finnst Framsóknarflokknum?
Hvað finnst Besta flokknum?
Hvað finnst Frjálslynda flokknum?
Hvað finnst VG?
Allir þessir flokkar nema VG hafa verið fylgjandi markaðsvæðingu orkunnar.  Hafa þeir skipt um skoðun í samræmi við það sem ég tel vera vilja almennings eftir hrun? Ég þekki svarið frá VG. Þess vegna er ég í þeim flokki og styð hann. Ég vil vita svar hinna. Þannig myndi ég vilja sjá tekið á umærðunni í fjölmiðlum í stað þess að óskapast yfir því að fólk er að tala saman og þess vegna setja fram mismunandi sjónarmið þótt í sama stjórnmálaflokki sé.  
Í  
http://www.ruv.is/frett/thingmenn-vg-beri-ekki-deilur-a-torg
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498003/2010/05/25/2/
http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/3381  

Fréttabréf