ENN ER BOÐUÐ FORRÆÐISHYGGJA!

Birtist í DV 10.05.10.
DVSannast sagna hélt ég að flestir sæju að skortur á gagnsæi og lýðræði ættu drjúgan þátt í efnahagshruninu. Hjarðhegðun hefur líka verið nefnd og tvíburasystir hennar, forræðishyggjan. Hvarvetna þar sem fólk kemur saman til að ræða nýútkomna rannsóknarskýrslu ber þetta hæst.
Ekki þó hjá öllum. Ekki hjá starfshópi forsætisráðuneytisins sem í lok síðustu viku skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar um breytta og bætta stjórnsýslu með hliðsjón af efnahagshruninu og lærdómum sem af því hafa verið dregnir. Í skýrslu hópsins er vissulega sitthvað ágætt að finna.

Vilja styrkja yfirvaldið

En ekki er  mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og  forræðishyggju  eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að "skerpa á forystuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn" ; aðrir ráðherrar eigi að sitja "í skjóli" hans og megi ekki orka tvímælis hverjum  beri  "að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til." Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt, yfirvald beri að styrkja.
Aðrar leiðir hygg ég að séu vænlegri til að veita ráðherrum nauðsynlegt aðhald. Það er einfaldlega að  gera þá ábyrgari gangvart þinginu og þingið ábyrgara gagnvart þeim.

Ráðherrar ábyrgir gagnvart þingi

Þannig tel ég að það eigi að vera opinn og eðlilegur framgangsmáti að þingið taki störf ráðherra til skoðunar og samþykki traust eða vantraust á þá eftir atvikum.  Þetta á við þegar ráðherra hefur að mati þingsins orðið á í messunni.  Einnig vakna spurningar þegar ágreiningur rís innan ríkisstjórnar.  Ef ráðherra er á skjön við ríkisstjórnarviljann en ekki þingmeirihlutann má spyrja hvort eðlilegra sé að hann lúti vilja forsætisráðherrans og víki eða þingmeirihlutans og sitji.
Þessi álitamál eru sem áður segir afgreidd í starfshópi ríkisstjórnarinnar á þann veg að forræði forsætisráðherra eigi að efla. Þetta þarf að ræða miklu betur en gert er í skýrslunni því  einfalt er málið ekki.
Sama gildir um staðhæfingar sem fram eru settar um breytingar á Stjórnarráðinu. Þar er margt sagt sem þarf alla vega miklu meiri skoðunar við. Þá vil ég einnig nefna afstöðuna til stjórnunar almennt.
Hrunverjarnir töluðu einsog við munum mikið um hina miklu stjórnendur sem allt áttu að vita og kunna. Allir voru þeir á alls kyns hvatalaunum og bónusum. Aðrir áttu að hlýða leiðsögn þeirra - vafningalaust.  Á Alþingi voru sömu formúlur uppi. Laun og hlunnindi voru aukin við ráðherra og stjórnendur, því á þá áttu aðrir að geta reitt sig.

Meiriháttar og minniháttar

Nú hefur komið á daginn að heppilegra  hefði verið að virkja marga en ekki fáa, lýðræðið en ekki einræðið. Hvað skyldi starfshópurinn segja um þetta? Jú, talað er fyrir fagmennsku við ráðningar, sérstaklega á stjórnendum. En einmitt þar - hjá foringjunum er staðnæmst því tekið er fram að "þróa þurfi áherslur í starfsmannamálum þannig að hún (stjórnsýslan) veiti stjórnendum hæfilega umbun og aðhald." Hvað með aðra starfsmenn? Eru það bara stjórnendur sem eiga að fá umbun fyrir vel unnin störf? Svolítið minnir þetta á gamalt frumvarp Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1996 þar sem talað var um "meiri háttar" og "minniháttar" starfsmenn í stjórnsýslunni!
Allt á þetta að vera liðin tíð. En nú þarf að ræða ábendingar starfshópsins. Þær eru  umræðugrunnur en ekki forskrift fyrir framtíðina.

Fréttabréf